Sjálfhreinsandi klósett í nýrri þjónustumiðstöð

Feðgarnir Davíð Halldórsson og Halldór Pálsson við opnunina í gær.
Feðgarnir Davíð Halldórsson og Halldór Pálsson við opnunina í gær. mbl.is/Eyþór

Þjónustumiðstöðin Laufey var opnuð í gær á þjóðvegi 1 á horni Landeyjahafnarafleggjarans.

Að þjónustumiðstöðinni standa feðgarnir Halldór Pálsson og Davíð Halldórsson, ásamt ríflega 30 öðrum. Segir Halldór í samtali við Morgunblaðið að hugmyndin hafi komið til þeirra feðga fyrir um átta árum og hafi þeir alltaf vitað að verkefnið myndi nást og þjónustumiðstöðin yrði byggð.

Hugmyndin hefur þó þróast töluvert á þeim átta árum.

Býður upp á ýmsa þjónustu

Segir Halldór að eiginkona hans hafi ekki verið mikill aðdáandi almenningssalerna víða um land og ákváðu þeir feðgar því að setja upp almennilega salernisþjónustu um land allt.

Hugmyndin hafi svo þróast yfir í þjónustumiðstöð þar sem er að finna sjálfsafgreiðsluverslun með helstu drykki, snarl og vörur fyrir ferðalanga, einstök gagnvirk upplýsingaborð um áhugaverða staði og þjónustu í nærumhverfi og veitingastaðinn Laufey Bistro sem mun bjóða upp á úrvalsmatseðil fyrir svanga sælkera.

Spurður af hverju nafnið Laufey hafi orðið fyrir valinu segir Halldór það vera umhverfislegt. Sé það samsetning á orðunum lauf og eyja og þótti það því smellpassa við umhverfi landsins.

Sjálfhreinsandi klósett

Salernisaðstaðan er þá með þeim magnaðri sem blaðamaður hefur séð en salerni þjónustumiðstöðvarinnar eru sjálfhreinsandi. Eftir hverja notkun fara salernin í gegnum snögga, en ákaflega öfluga, djúphreinsun og getur því salernisaðstaðan varla verið hreinni.

Þjónustumiðstöðin býður einnig upp á Kempower-hraðhleðslustöðvar fyrir átta rafbíla, vöktuð bílastæði og ilmandi Costa-kaffi og verður hluti hennar, til að mynda salernin, opinn allan sólarhringinn.

Segist Halldór handviss um að þjónustumiðstöðin muni slá í gegn. Upplýsir hann að stefnt sé að opnun annarrar stöðvar á Hvammstangaafleggjara og muni framkvæmdir þar hefjast eftir að þessi stöð hefur sannað sig.

Þótt þjónustumiðstöðin hafi opnað dyr sínar fyrir gestum í gær eru enn einhverjar framkvæmdir eftir, þó aðallega utan á miðstöðinni.

Segir Halldór að þeim verði vonandi að fullu lokið í ágúst.

Verði þá einmitt tvö ár síðan framkvæmdir á stöðinni hófust árið 2022.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert