„Ég á eina vinkonu hérna í Eyjum sem sagði mér að það sé búið að ættleiða einn sem tjaldið brotnaði hjá, heim til hennar. Þannig ég held að mjög margir séu í viðbragðsstöðu að taka fólk inn,“ segir Jenný Guðmundsdóttir, eyjagestur á Þjóðhátíð, um hvassviðrið sem byrjaði þar fyrir stuttu.
Segir Jenný í samtali við mbl.is að öll tjöld á hennar svæði séu við það að fjúka.
„Það er allt í fokki í raun á tjaldsvæðinu. Öll tjöldin eru við það að fara að fjúka. Ég held að eitt sé brotið, heyrði ég. Okkar helst hvorki uppi né niðri. Þetta er allt einhvern veginn út um allt,“ segir Jenný en bætir þó við að áhyggjum sé kyngt með bjórsopa þar á bæ.
Er þetta að hafa áhrif á stemmningu þarna í eyjunni?
„Auðvitað að vissu leyti en það eru flestir sem eru bara í massa stuði og um leið og það er kominn bjór í kerfið þá er öllum eiginlega bara drullusama.“
Segist Jenný vera á VIP-tjaldsvæði á Þórsvelli. Þar sé gæsla sem gangi hringinn um svæðið til að halda tjöldunum niðri. Sé þá sérstaklega ein manneskja sem standi þar fremst meðal jafningja.
„Það er ein kona sem ég veit ekki hvað heitir, en hún er búin að vera ógeðslega dugleg við að hjálpa öllum. Okkar tjald slitnaði og það kom gat á það og hún kom bara með límband á hlaupum fyrir okkur.“
Spurð um það fólk sem ekki er á VIP-tjaldsvæðum með gæslu segist Jenný ekki viss um svör þeirra við hvassviðrinu
„Ég held að fólkið sem er á hinum svæðunum sé annaðhvort búið að finna sér einhvern stað til þess að vera í skjóli eða það er bara „shit happens“,“ segir Jenný en bætir við að hún hafi heyrt um einn sem hafi verið tekinn inn á fjölskylduheimili eftir að tjald hans brotnaði.
Segist hún þá sjálf hafa sent póst á þjóðhátíðarnefnd vegna veðursins.
„Ég persónulega sendi póst á þjóðhátíðarnefnd til að sjá hvort við gætum mögulega verið færð öll inn í íþróttahús.“
Er þá eitthvað stress fyrir kvöldinu ef þetta skyldi vera svona eitthvað fram eftir?
„Það er pínu, það er pínu. Þess vegna sendi ég póst. Ég sé alveg að mínar vinkonur eru bara „hvað á maður að gera?“ Við erum í raun búnar að henda öllu ofan í töskur, tilbúnar til að færa okkur ef þörf er á þannig að þegar tjaldið fýkur þá fer dótið okkar ekki með því.“
En tekur þó Jenný fram að aðstæður eru ekki að hafa áhrif á andann í hópnum
„Alls ekki, það er góð stemmning hérna.“
Uppfært: Jenný hefur staðfest að hópurinn fái að gista í Herjólfshöllinni í nótt.