Þarf að sýna í verki að hún sé traustsins verð

„Það er fólkið sem velur forsetann, bæði núna í þessum …
„Það er fólkið sem velur forsetann, bæði núna í þessum kosningum og í þeim næstu og maður verður auðvitað að ávinna sér traust og sýna í verki að maður sé traustsins verður.“ mbl.is/Eyþór

Halla Tómasóttir hugsar sér að vera forseti í tvö eða þrjú kjörtímabil, með leyfi þjóðar. Á þessum tíma vill hún brúa bilið á milli kynslóða og gera Ísland að fyrirmynd í því sem hún kallar kynslóðajafnrétti.

Blaðamaður mbl.is nær tali af Höllu á föstudagskvöldi þegar hún er á leið frá Vestmannaeyjum til Borgarness. Hún hafði verið viðstödd setningarathöfn á 150 ára afmæli Þjóðhátíðar í Eyjum sem er haldin nú um helgina. Þar hlýddi hún á ræður Eyjamanna og ræddi við gesti í hvítu hústjöldunum frægu.

„Við vildum sýna Eyjafólki virðingu fyrir að standa að og halda þess kynslóðahátíð,“ segir hún í samtali við blaðamann.

„Það er sérstakt að koma saman um verslunarmannahelgi þar sem allt að fjórar kynslóðir eru algeng sjón saman að njóta heimatilbúna veiga og gleðjast saman. Það er eitthvað sem okkur finnst vera til eftirbreytni.“

Fegin að þurfa ekki að labba í hvítum kjól í gegn um rigningu

Hátíðleg setningarathöfn Höllu á föstudag hefur sennilega farið fram hjá fáum en þar tók hún loksins við sem forseti, nú tveimur mánuðum eftir að hún var kjörin.

„Þetta er auðvitað svo ótrúlega mikill heiður og í senn mikil ábyrgð að taka við þessu hlutverki,“ svarar Halla spurð hvernig henni leið á athöfninni. Hún bætir við að hún hafi verið djúpt snortin.

Þá tók hún hún ánægð að það stytti loksins upp rétt fyrir athöfnina eftir annars vætusaman dag. „Góðir Íslendingar, það birti upp,“ voru jú fyrstu opinberu orð hennar til almennings þegar hún veifaði til íslenskra þegna af svölum Alþingis.

Björn Skúlason, eiginmaður forseta, og Halla á svölum Alþingishússins.
Björn Skúlason, eiginmaður forseta, og Halla á svölum Alþingishússins. mbl.is/Eyþór

Þykir þér það táknrænt að það hafi stytt upp þegar þú tekur við sem forseti?

Forsetinn hlær við. „Ég las það einhvers staðar á samfélagsmiðlum í dag að það hefði fyrir marga þótt góðs viti,“ svarar Halla og bætir við:

„Ég var nú aðallega bara fegin að þurfa ekki að labba í hvítum kjól í gegn um rigningu. Þannig að ég var mjög glöð að það stytti upp og fannst óskaplega fallegt hvað verðrið lék við okkur á meðan á athöfnum í Dómkirkju og Alþingi stóð yfir. En líka þegar við komum til Bessastaða.“

Þá hafi kvöldið verið fallegt á Bessastöðum en þangað bauð hún ungum stuðningsmönnum að lokinni athöfn í miðbænum, en hún segir unga fólkið vera henni ofarlega í huga eins og fram kom margoft í kosningabaráttu hennar.

„Þetta var bara fallegur dagur sem snerti okkur hjónin og fjölskylduna djúpt.“

„Fagnar öllum árshátíðum“

Hápunktur athafnarinnar var reyndar tónlistin, að mati Höllu. Hún valdi tvö lög sem sungin voru við athöfnina: annars vegar Vikivaka, vorboða Jóhannesar úr Kötlum, og Vetrarsól eftir hljóminn Gunnar Þórðarson, sem boðar jú veturinn.

Seinna lagið þótti sumum fremur drungalegt. En Höllu líkar við allar árstíðir. Og við búum jú á Íslandi.

„Ég fagna öllum árstíðum og fyrir mig hefur Vetrarsól alltaf verið lag sem er mér mjög mikilvægt,“ segir hún.

Skólakór Kársnesskóla, sem hún söng með þegar hún var barn, og Sigríður Thorlacius fluttu  Vikivakann og Sigríður söng einnig seinna lagið með kór þegar Halla gekk inn í þingsal.

Horfir til tveggja kjörtímabila

Þá berst talið að framtíð Höllu í forsetaembættinu. Kannski fulllangt fram í tímann að hennar mati.

Ætlarðu að vera fleiri en eitt kjörtímabil?

Halla hlær við. „Það finnst mér fullfljótt að spyrja,“ svarar hún svo.

„En ég held að flest fólk sem hefur sóst eftir embættinu hljóti nú að hafa hug á því. Og ég hef sagt það áður að ég telji eðlilegt að horfa til tveggja til þriggja kjörtímabila en ekki endilega lengur.“

Tíminn verður samt að leiða það í ljós.

„Það er fólkið sem velur forsetann, bæði núna í þessum kosningum og í þeim næstu, og maður verður auðvitað að ávinna sér traust og sýna í verki að maður sé traustsins verður.“

Björn og Halla.
Björn og Halla. Ljósmynd/Aðsend

Ísland verði fyrirmynd friðar, jafnréttis og sjálfbærni

En hvaða breytingar viltu sjá í þinni forsetatíð?

„Ég vona að þegar ég hef lokið mínum tíma sem forseti Íslands að ég nái að vera forseti sem hefur náð að byggja traust á milli ólíkra hópa og kynslóða í okkar samfélagi. Náð að virkja sem flesta til virkrar þátttöku í okkar samfélagi og náð að móta skýrari langtímasýn sem er eining og samstaða um,“ svarar Halla.

„Því að það er þannig á svona tímum, þegar við erum bæði að ganga í gegnum umbreytingar innan okkar samfélags og í heimi sem er í vanda á nokkrum sviðum, þá skiptir máli að vita hvert skal halda og hvernig skal halda þangað, til þess að smá en kná þjóð geti ekki bara látið til sín taka í þessu samfélagi heldur vonandi verið fyrirmynd hvað varðar þá styrkleika sem við í samfélaginu búum yfir.“

Þá kveðst hún vilja leggja áherslu á að Ísland sé fyrirmynd í kynjajafnrétti en bendir á að „að það sé vel skjalfest.“

„Ég hef áhuga á því að við verðum fyrirmyndir hvað varðar kynslóðajafnrétti,“ segir hún og heldur áfram:

„Að við höldum áfram að vera fyrirmyndir í sjálfbærri orku og tökum það lengra í sjálfbærri matarframleiðslu og nýsköpun yfir höfuð. Og við veljum að vera friðsæl þjóð í okkar eigin samfélagi og til fyrirmyndar hvað varðar friðsælar lausnir og nálgun á stöðuna í heiminum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert