Þrír fangaverðir á spítala eftir árás fanga

Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir aðstæðurnar sem sköpuðust á Litla-Hrauni í …
Páll Winkel, fangelsismálastjóri, segir aðstæðurnar sem sköpuðust á Litla-Hrauni í gær ólíðandi. Samsett mynd

Til átaka kom í fangelsinu á Litla-Hrauni í gær þegar fangi réðst fyrirvaralaust á fangaverði með þeim afleiðingum að þrír fangaverðir hlutu alvarlega áverka og þurftu í kjölfarið að leita aðhlynningar á spítala. Vísir greindi fyrst frá.

„Fanginn sem um ræðir neitaði að fara eftir ítrekuðum og lögmætum fyrirmælum fangavarða. Í kjölfarið réðst hann svo á þá. Þetta voru mjög krefjandi aðstæður, en starfsfólkið vann þetta þó með afar faglegum hætti og tókst að yfirbuga einstaklinginn,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri í samtali við mbl.is.

Hann telur sérstaka ástæðu til þess að hrósa starfsfólki og stjórnendum fangelsisins fyrir hve fljótt og örugglega brugðist var við því ástandi sem skapaðist.

Fanginn verði vistaður í einangrun

Páll segir að fanginn verði látinn sæta einangrunarvist vegna hegðunarinnar, en áhyggjuefni sé að atvik sem þessi færist sífellt í vöxt í fangelsum á Íslandi.

„Þetta var grafalvarlegt atvik, en þessi fangi tilheyrir ört vaxandi hópi einstaklinga innan fangelsiskerfisins sem hegða sér á óútreiknanlegan hátt og beita þar að auki ofbeldi og hótunum gegn starfsfólki og öðrum föngum án fyrirvara,“ segir Páll. 

„Það gengur ekki í fangelsiskerfinu að fangar geti endurtekið beitt ofbeldi gegn fangavörðum og öðrum. Þetta hefur þær afleiðingar að hann hlýtur agaviðurlög í formi einangrunar, en ef einstaklingar gerast oft uppvísir að svona hegðun mega þeir búast því að vera vistaðir á öryggisgangi um lengri tíma,“ segir Páll og bætir við:

„Í ljósi þessarar stöðu rekum við nú tvo öryggisganga þar sem einstaklingar sem sýna af sér svona hegðun eru vistaðir, en ef þetta heldur áfram munum við þurfa að ganga harðar til verks, þar sem uppákomur sem þessi virðast vera að færast í vöxt,“ segir Páll að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert