Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar annaðist útkall, djúpt norður af Vestfjörðum, vegna veikinda um borð í skemmtiferðaskipi á Grænlandssundi snemma í morgun.
Þetta kemur fram í færslu Gæslunnar á Facebook.
Þyrlusveitin var kölluð út í nótt og tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli laust eftir klukkan fjögur og tók stefnuna á Ísafjörð þar sem fyllt var á eldsneytistanka þyrlunnar.
Þaðan var flogið á haf út og á sjöunda tímanum í morgun var TF-GRO komin að skemmtiferðaskipinu.
Í færslunni segir að töluverður vindur hafi verið á staðnum eða um 40 hnútar sem samsvarar rúmlega tuttugu metrum á sekúndu. Þá var éljagangur og um fjögurra til fimm metra ölduhæð.
Áhöfn skemmtiferðaskipsins tók á móti tengilínu frá þyrlunni á þyrlupalli skipsins og fór sigmaður þyrlusveitarinnar um borð í skipið og undirbjó sjúklinginn fyrir hífingu um borð í þyrluna.
Segir að vel hafi gengið að koma manninum um borð í þyrluna og var flogið með hann til aðhlynningar á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Áhöfnin á TF-GRO verður til taks á Akureyri til morguns og hin vaktin verður í viðbragðsstöðu í Reykjavík ef á þarf að halda.