Þyrla Landhelgisgæslunnar var á leið með tvo veika einstaklinga frá Ísafirði og nálguðust Reykjavík þegar útkall barst um tvær konur á kajökum sem rak frá landi við Skildinganes.
„Þyrlan gat þá farið rakleiðis á staðinn. Örfáum mínútum eftir að okkur barst þessi tilkynning að þá var búið að hífa kajakræðarana um borð í þyrlu Gæslunnar,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.
„Þær voru kaldar og hraktar, en að öðru leyti ómeiddar,“ segir Ásgeir. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli með einstaklinganna fjóra um klukkan sjö í kvöld.
„Þarna skipti sköpum að þyrlan var tiltölulega stutt frá þessum stað og gat farið beint á staðinn. Það er auðvitað alltaf grafalvarlegt ef einhver er í sjónum og tala nú ekki um að reka frá landi. Það skiptir miklu máli að koma þeim í þyrluna og bjarga þeim sem fyrst.“