Úr forstjórastólnum í sögu þorsksins

Gylfi Ólafsson hitti blaðamenn í félagsheimilinu í Ögri.
Gylfi Ólafsson hitti blaðamenn í félagsheimilinu í Ögri. mbl.is/Agnar Már

Sólin brýtur sér leið milli skýjabakkanna sem af og til sleppa nokkrum rigningardropum til jarðar er blaðamenn Morgunblaðsins leggja leið sína inn í Ögurvík í Ísafjarðardjúpi. Förinni er heitið að hinum víðfræga kirkjustað Ögri þar sem nú er rekin ferðaþjónusta og hið huggulegasta kaffihús í félagsheimilinu.

Ögur á sér langa sögu, félagsheimilið, sem nú á dögum er helst þekkt fyrir sveitaballið sem þar er haldið í júlí hvert sumar, var reist árið 1925 og verður því aldargamalt á næsta ári. Veggina prýða myndir af þeim sem það reistu og fyrsta byggingarstigi. Þá má nefna að bærinn var þingstaður Ögurhrepps og fyrsta rafstöðin á sveitaheimili við Djúp var reist í Ögri 1928. Þá var þar lengi landssíma og póstafgreiðsla, sem og læknissetur frá 1932 til 1951.

Tími gefst til að fá sér alíslenska kjötsúpu og kannski minna íslenska, en þó rótgróna í menningu þúsaldarkynslóðarinnar, samloku með skinku og osti sem vertinn í Ögri reiðir fram á örskotsstundu. Í eftirrétt er svo uppáhellt kaffi og upprúllaðar pönnukökur með sykri.

Og þegar fyrsta pönnukakan hefur runnið ljúflega niður með kaffinu kemur Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar og fyrrverandi forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, í hlaðið með fjölskyldunni. Ferð fjölskyldunnar er heitið hringinn í kringum landið, en fjölskyldufaðirinn gefur sér þó tíma til að spjalla við blaðamenn Hringferðarhlaðvarps Morgunblaðsins.

Gekk á ýmsu

Gylfi lét af störfum sem forstjóri heilbrigðisstofnunarinnar í september á síðasta ári og átti hugmyndina að því að hittast svo til á miðri leið um Djúpið. Við byrjum á að ræða um forstjórastarfið, en Gylfi sinnti því einmitt á meðan heimsfaraldur kórónuveiru geisaði.

„Það gekk nú á ýmsu þegar ég var þar í forstjórastólnum og ég var þarna dálítið í fjölmiðlum í tengslum við covid og smitið sem var á hjúkrunarheimilinu Bergi snemma í faraldrinum,“ segir Gylfi.

„Þetta var þarna í blábyrjun, mánaðamótin mars/apríl. Þannig að þetta var allt svolítið sérstakt og merkilegt. Veðrið var slæmt þannig að þetta var dálítið áhugavert og myndrænt,“ segir Gylfi en því umstangi eru gerð skil í heimildarþáttunum Stormi eftir Sævar Guðmundsson og Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Skipunartímabili Gylfa lauk um mitt síðasta ár og þá fór hann að velta því fyrir sér hvort hann hefði hug á að vera forstjóri í önnur fimm ár.

„Þá bara komst ég að því að ég væri kannski búinn að gera það sem ég vildi gera í þessari umferð. Ég væri meira boðhlaupsmaður frekar en langhlaupsmaður í þessu. Ég var búinn að koma mörgum breytingum til leiðar og fannst tíminn réttur til að koma keflinu á einhvern annan. Hafði ekkert hug á að flytja en haft margar hugmyndir um það hvað er hægt að gera meira og betur, þá á Ísafirði sérstaklega,“ segir Gylfi.

mbl.is/Agnar Már

Opnar nýja sýningu

Fram að þessu hafði hann verið í sveitarstjórn í tvö ár en þegar hann sagði skilið við forstjórastarfið gat hann einbeitt sér betur að þeim málum. Það er þó ekki þannig að hann hafi aðeins unnið í sveitarstjórnarmálunum síðan í september í fyrra, hann er nefnilega með nýtt verkefni í bígerð.

„Það sem ég er helst að undirbúa núna er upplifunarsýning fyrir gesti skemmtiferðaskipa. Aðdragandinn að því er að Ísafjörður er kirfilega þriðja stærsta skemmtiferðaskipahöfn hér á Íslandi og það hefur dregið saman með höfnunum þremur sem eru í efstu sætunum, Akureyri, Reykjavík og Ísafirði, bara í ár,“ segir Gylfi og rekur ástæður þess að þróunin hafi verið á þann veg.

Fyrsta ástæðan sé að nýr hafnarkantur hafi verið byggður á Ísafirði og nú geti stærstu skemmtiferðaskipin sem eiga leið að Íslandsströndum lagt alveg að bryggju.

„Annar þáttur er að Ísafjörður er bara frábær viðkomustaður fyrir gesti á skemmtiferðaskipum. Fjöllin eru mjög nálægt skipinu þannig að fólk finnur þessa fjarðatilfinningu, að vera inni í lokuðum firði,“ segir Gylfi og bendir svo á alla þá staði sem eru í næsta nágrenni við Ísafjörð. Þriðja ástæðan er að hans mati sú að siglingarleiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar er passleg sigling með hóflegri olíueyðslu á svona stórum skipum.

„Þau fara seinnipartinn frá Reykjavík og eru komin að morgni til Ísafjarðar,“ segir Gylfi og segir það sama gilda um siglingarleiðina til og frá Akureyri.

„Fjórða ástæðan er að það sem fólk gerir í Reykjavík og á Akureyri eru heilsdagsferðir. Gullni hringurinn er allur dagurinn, á Akureyri er það Goðafoss og Mývatn. Það er allur dagurinn. En allt sem er hægt að gera frá Ísafirði eru hálfsdagsferðir, svona 3-5 klukkustundir,“ segir Gylfi og segir gesti skemmtiferðaskipanna því geta tekið því aðeins rólegar á Ísafirði.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka