Varað við skriðuföllum á Austfjörðum

Uppsöfnuð úrkoma frá kl. 12 í dag.
Uppsöfnuð úrkoma frá kl. 12 í dag. Kort/Veðurstofa Íslands

Veðurstofa Íslands varar við auknum líkum á skriðuföllum á Austfjörðum vegna mikillar úrkomu á sunnudaginn og frídegi verslunarmanna.

Austfirðir hafa nú bæst við þau svæði þar sem Veðurstofa Ísland spáir mögulegum skriðuföllum um verslunarmannahelgina, en greint var frá því í gær að auknar líkur væru á skriðuföllum á Suðurlandi og Ströndum.

Nýleg spá gerir ráð fyrir að úrkomubakki komi að Austfjörðum seint á sunnudagskvöld og teygi sig frá Borgarfirði eystri alla leið að Öræfum.

Þá geti úrkomuákefð náð 10 mm á klukkustund, með meiri ákefð til fjalla. Ef veðurspá gengur eftir mun svo annar úrkomubakki fylgja síðdegis á mánudaginn og með meiri ákefð bæði til fjalla og á láglendi.

Árétta að skriður falli þó hætt sé að rigna

Þar sem rignt hefur mikið undanfarið má gera ráð fyrir að jarðvegur sé víða vatnsmettaður, jarðvegsskriður geta fallið þegar jarðvegur er með þeim hætti. Má þess einnig vænta að vatnavöxtur verði í ám og lækjum og að farvegsbundnar aurskriður fari af stað.

Skriðuvakt Veðurstofunnar vill benda fólki á að sýna aðgát þegar ferðast um vegakerfi á Ströndum, Austfjörðum og undir Mýrdals- og Vatnajökli.

Brýnir vaktin mikilvægi þess að sýna aðgát þegar ferðast er undir bröttum hlíðum og að hafa í huga að skriður geta fallið skyndilega þó mesta ákefð rigningar sé búin.

Verði fólk vart við skriðuföll er það hvatt til að tilkynna það til skriðuvaktar með því að nota skráningarform á vef Veðurstofunnar eða hringja í síma 522-6000.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert