„Veðrið er miklu betra heldur en að spáin sagði. Það er ágætis veður bara. Sól og smá andvari,“ segir Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, um veðrið í Eyjum í dag.
Spáð hafði verið miklu hvassviðri í Eyjum í dag en Jónas segir að veðrið hafi enn engin áhrif haft á dagskrá hátíðarinnar.
„Það hefur ekki haft nein áhrif ennþá og við höldum bara okkar striki með dagskrána bara eins og var planað og ef að eitthvað gerist þá bara tökum við á því jafnóðum.“
Í samtali við mbl.is í morgun sagði lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum að viðbúnaður hafi verið vegna hvassviðrisins og menn hafi verið að festa tjöld betur en venjulega. Telur Jónas þá lausn líklega verið að virka enn sem komið er.
„Ég held að við höfum örugglega tryggt þetta nógu vel. Ég hef ekki orðið var við neitt að fjúka ennþá.“
Um dagskrána í dag segir formaðurinn að barnadagskrá hefjist klukkan hálf þrjú og fylgi svo söngvakeppni barnanna strax í kjölfarið.
„Svo kemur smá svona kvöldmatarhlé. Svo byrjum við klukkan hálf níu í kvöld með látum. Stuðmenn og Helgi Björns og Una Torfa og læti. FM95blö og Gusgus og eitthvað svona. Þetta verður bara svakalegt.“
Segir Jónas dagskrána í gær hafa gengið eins og í sögu og þar hafi líklegast Bubbi Morthens verið fremstur meðal jafningja.
„Hann var hrikalega góður.“
Bendir svo Jónas að lokum á að forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, hafi verið viðstödd setningu Þjóðhátíðar í ár, í líklega sínu fyrsta embættisverki. Með henni var eiginmaður hennar Björn Skúlason og Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. Héldu þau í Hvítu tjöldin eftir setninguna þar sem boðið var upp á kaffi og vellystingar.