Sr. Frank M. Halldórsson fyrrum sóknarprestur í Nessókn, lést á bráðadeild Landsspítalans í Fossvogi 31. júlí s.l. 90 ára að aldri.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá systkinum Franks.
Frank fæddist í Reykjavík 23. febrúar 1934. Foreldrar hans voru Rose Evelyn Halldórsson og Nikulás Marel Halldórsson. Systkini hans eru Betsy R. Halldórsson og Georg S. Halldórsson.
Frank varð stúdent frá MR árið 1954 og las guðfræði við Háskóla Íslands. Hann nam guðfræði í Sviss við The Graduate School of Ecumenical Studies í Chateau de Bossey og við Háskólann í Heidelberg í Þýskalandi.
Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands í janúar 1959 og prófi í uppeldis- og kennslufræðum frá Háskóla Íslands árið 1971. Kennsluferil sinn hóf hann sem stundakennari við Mýrarhúsaskóla en lengst kenndi hann við Hagaskóla frá árinu 1959 til 1987.
Frank var skipaður sóknarprestur í Nesprestakalli frá 1. janúar 1964 og gegndi því starfi til ársins 2004. Í Neskirkju var mjög öflugt safnaðarstarf og voru afar vinsælar sumarferðir safnaðarfólks bæði innan lands og utan.
Framhaldsnám í sálgæslu nam hann við The University of Texas í Houston í Bandaríkjunum frá árinu 1987 til ársins 1989 og starfaði jafnframt námi sem sjúkrahúsprestur við M.D.Anderson Hospital í Houston.
Frank hafði mikinn áhuga á að kynna söguslóðir Biblíunnar og í sextán ár ráku þau Jóna Hansen ferðaskrifstofuna Víðsýn og með þeim fór fjöldi Íslendinga til Biblíulanda.
Frank var formaður Prestafélags Suðurlands í tíu ár og sat í skipulags- og starfsháttanefnd Reykjavíkurprófastsdæmis í þrjú ár.
Útför hans verður gerð frá Neskirkju, mánudaginn 26. ágúst klukkan 15.00.