Egill Aaron Ægisson
Leit stendur nú yfir í Vestmannaeyjum að manni. Hans hefur verið saknað síðan í morgun. Björgunarbátur hefur verið ræstur út til leitar.
Uppfært 14:40:
Maðurinn fannst heill á húfi.
„Við erum búin að leita inni á Hamri og erum að undirbúa okkur fyrir að fara í frekari leit en vonum auðvitað að hann birtist einhvers staðar hérna,“ segir Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum.
Hann segir að ekki sé lýst eftir manninum vegna einhvers konar afbrots.
„Við bara óttumst um hann.“
Var lögreglan að gera sig klára fyrir frekari leit þegar mbl.is heyrði í Karli Gauta.
„Já, við erum bara að gera okkur klár að fara að leita og fara á sjó líka, úti fyrir Hamrinum.“
Um nóttina í Eyjum segir lögreglustjórinn að einn sé nú í fangaklefa lögreglunnar og alltaf sé um einhverja pústra að ræða.
Segir hann fá fíkniefnamál hafa komið upp og engin kynferðisbrot hafa ratað á borð lögreglunnar. Einhverjar líkamsárásir hafa þó komið upp um helgina.
„Það er verið að kæra líkamsárásir nokkrar, eina eða tvær í nótt. Það eru alveg viðvarandi einhverjir pústrar alltaf en sem betur fer enginn eitthvað mikið slasaður.“