Eru gleymd orð framtíð íslenskunnar?

Jóhannes B. Sigtryggsson rannsóknardósent er áhugamaður um gleymd orð.
Jóhannes B. Sigtryggsson rannsóknardósent er áhugamaður um gleymd orð. Samsett mynd

Það hve mörg gleymd orð eru til í ís­lensku er vitn­is­b­urður um að tungu­málið sé lif­andi að sögn Jó­hann­es­ar B. Sig­tryggs­son­ar rann­sókn­ar­dós­ents við Árna­stofn­un.

Slík orð geta sömu­leiðis verið sókn­ar­færi fyr­ir áhuga­fólk um blæ­brigðaríkt mál.

Jó­hann­es gerði gleymd orð að umræðuefni í pistli á vef Árna­stofn­un­ar á dög­un­um og fjallað var um málið í Morg­un­blaðinu síðasta laug­ar­dag.

Þar kom fram að meiri­hluti ís­lenskra orða er í raun gleymd­ur. Í Rit­málssafni orðabók­ar Há­skól­ans má finna um 700 þúsund orð en í hefðbundn­um orðabók­um eru þau 60-80 þúsund.

Sum aðeins einu sinni komið fyr­ir

Sum orðanna í Rit­málssafn­inu hafa vissu­lega aðeins komið einu sinni fyr­ir á riti og oft er um að ræða svo­kallaðar dæg­ur­sam­setn­ing­ar, það eru orð sem eru búin til á staðnum.

Önnur hafa þó verið meira notuð eins og orðið bramlsmaður sem Jó­hann­es held­ur upp á:

„Eitt af þess­um orðum er bramlsmaður sem lýs­ir um­fangs­mikl­um manni sem hef­ur mik­il áhrif. Brýt­ur og braml­ar. Ég held að það sé það orð sem lýs­ir best Don­ald Trump. Mér dett­ur ekki í hug neitt orð sem lýs­ir hon­um jafn vel. Brýt­ur og braml­ar allt sem að hann kem­ur ná­lægt.“

Ef fólk er þreytt á orðinu falsfrétt er um að …
Ef fólk er þreytt á orðinu fals­frétt er um að gera að nota upp­lost í staðinn. AFP

Krydd­ar málið

Mikið er hægt að fá út úr því að skoða göm­ul og gleymd orð en Jó­hann­es seg­ir þau ein­mitt geta kryddað upp á málið. 

„Þetta eru skemmti­leg til­brigði [...] fyr­ir þá sem vilja hafa blæ­brigðaríkt mál eða krydda mál sitt,“ seg­ir Jó­hann­es. 

Fyr­ir þá sem til­heyra þeim hópi eru hér nokk­ur dæmi um gleymd orð sem Jó­hann­es talaði um í pistli sín­um:

ald­ar­mál (hk.) óbreyt­an­leg ákvörðun’

ann­kvista (so.) ‘fram­fleyta, fram­fær­a’

bági (kk.) ‘and­stæðing­ur’

bramlsmaður ‘skrumari, grobbhan­i’

dagþing­an (kvk.) ‘samn­ingaviðræður, fund­ur; samn­ing­ur’

hermd (kvk.) ‘gremja, heiftrækn­i’

hleyt­ismaður (kk.) ‘staðgeng­ill’

illtyngd (kvk.) ‘baktal, ill­mælg­i’ 

vá­bæli (hk.) ‘ófyr­ir­séð ólukka’

Allt bendir til þess að Kamala Harris verði bági Donalds …
Allt bend­ir til þess að Kamala Harris verði bági Don­alds Trumps í banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um. Sum­ir segja Trump bramls­mann. AFP

Töku­orð gleym­ast líka

Þá tók Jó­hann­es sér­stak­lega fyr­ir göm­ul og gleymd töku­orð en þau hafa alltaf til­heyrt ís­lensku. Hér eru nokk­ur þeirra:

pikt­ur (kk.) ‘mál­ari’

stív­arður (kk.) ‘m.a. ráðsmaður’ (e. stew­ard)

tor­tís (kk.) ‘kynd­ill’ (e. torch)

Bláklæddur piktur málar blokk.
Blá­klædd­ur pikt­ur mál­ar blokk. mbl.is/​Ern­ir Eyj­ólfs­son

Orðin sett í sam­hengi

Fyr­ir þá sem eru spennt­ir að til­einka sér þenn­an orðaforða tók Jó­hann­es dæmi um hvernig nota megi nokk­ur orðanna í setn­ingu sem er eft­ir­far­andi:

„Bramlsmaður­inn Trump sagði að þetta væri upp­lost og ymt­ur. Hann stankaði ekki völd til hleyt­is­manna vegna vá­bæl­is. Illtyngd og um­gröft­ur ká­vísra bága hefði eng­in áhrif á það. Sig­ur­vegn­ing sann­leik­ans myndi sigra lygð þeirra.“

Á nú­tíma­máli þar sem öll orð eru í manna minn­um myndi setn­ing­in vera svona:

„Skrumar­inn Trump sagði að þetta væri fals­frétt og orðróm­ur/​kvitt­ur. Hann léti ógjarna af hendi völd sín til staðgengla vegna ófyr­ir­séðrar ólukku. Baktal og ásókn and­stæðinga hefði eng­in áhrif á það. Sann­leik­ur­inn yf­ir­stigi lygi þeirra.“

Að lok­um er rétt að geta þess að Jó­hann­es hvet­ur áhuga­fólk um ís­lenska tungu til að heim­sækja orðsifja­bók Árna­stofn­un­ar sem gerð var aðgengi­leg á ver­ald­ar­vefn­um í fyrra.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert