Fá ungmennin aftur heim til Hafnar

Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður nýheima þekkingarseturs (t.h.) og Kristín Vala …
Hugrún Harpa Reynisdóttir forstöðumaður nýheima þekkingarseturs (t.h.) og Kristín Vala Þrastardóttir, verkefnastjóri Heimahöfn (t.v.). Eyþór Árnason

Þekkingarsetrið Nýheimar á Höfn í Hornafirði hefur hrint af stað nýju verkefni undir nafninu HeimaHöfn í samstarfi við sveitarfélagið Hornafjörð.

Verkefnið lýtur að valdeflingu ungmenna í sveitarfélaginu og því að fyrirbyggja svokallaðan atgervisflótta. Í haust stefnir setrið á að opna vefsíðu til að miðla atvinnu-, frumkvöðla- og félagsstarfstækifærum til ungmenna.

Hugrún Harpa Reynisdóttir, forstöðumaður Nýheima þekkingarseturs, og Kristín Vala Þrastardóttir, verkefnisstjóri HeimaHafnar, ræddu við blaðamann Morgunblaðsins um verkefnið og stöðu ungmenna á landsbyggðinni.

Þekkingarsetrið er samstarfsvettvangur fjölbreyttra stofnana sem starfa á sviði menntunar, menningar, nýsköpunar og rannsókna á Suðausturlandi.

Ekki séríslenskur vandi

„Fljótlega eftir stofnun setursins ákváðum við að leggja áherslu á ungt fólk og fyrsta Evrópuverkefnið sem sem setrið fór í fjallaði um atgervisflótta ungs fólks frá dreifðari byggðum,“ segir Hugrún og segir setrið þannig hafa komist í samband við sænskan rannsakanda og síðar norska verkefnið Nordfjordakademiet sem sé fyrirmynd HeimaHafnar.

Í gegnum samstarfið hafi fljótt komið í ljós að flótti ungmenna í leit að menntunar- og atvinnutækifærum frá landsbyggðinni væri hvorki sérhornfirskur né séríslenskur, heldur spegluðu viðtöl þeirra við ungmenni á Höfn niðurstöður verk­efnisins í Noregi og rannsóknina í Svíþjóð. 

Meðal þess sem HeimaHöfn fæst við er að efla og viðhalda tengslum ungmenna við samfélagið í Hornafirði, þ. á m. þeirra ungmenna sem sækja nám annars staðar á landinu, og vera tengiliður þeirra við samfélagið og atvinnulífið í sveitarfélaginu hafi þau hug á að snúa aftur heim að námi loknu.

Segja Kristín og Hugrún það gegnumgangandi viðhorf meðal ungmenna að þar séu takmörkuð tækifæri til atvinnu- og félagsstarfs.

„Samfélaginu okkar þarf að takast að ná það góðri tengingu við þau áður en þau fara og opna augu þeirra fyrir þeim tækifærum sem eru hérna í heimabyggð til þess að þau vilji mögulega koma aftur,“ segir Hugrún.

Tannlæknirinn ekki eilífur

Þær segja mikilvægt að efla ungmenni til að láta samfélagið sig varða og að þau hafi valdið til þess að móta framtíð sveitarfélagsins og skapa sér tækifæri þar.

„Við tökum oft dæmi um tannlækninn hérna. Það er einn tannlæknir á Höfn og krakkarnir hugsa bara: Ég get ekki lært að vera tannlæknir því það er tannlæknir á Höfn. En hann er náttúrulega ekki eilífur og er kannski ekki að ná að sinna öllu fólkinu hérna,“ segir Kristín.

Mörgum krökkum þyki áhugasvið sín ekki endilega fara saman við það að geta búið í Hornafirði. Þá skapist eins konar valkreppa um hvort þau eigi að læra það sem þau hafa áhuga á og geti þá ekki búið í Hornafirði, eða búa í Hornafirði og mennta sig frekar í einhverju sem vekur minni áhuga en veitir fleiri tækifæri á heimaslóðum.

„En vinnumarkaðurinn sem við erum að horfa á í dag er ekki endilega sá sami og verður eftir fimm eða tíu ár og svo getur þú skapað þér starf sjálfur,“ segir Kristín.

Verkefnið miðar að því að opna augu ungmenna fyrir tækifærum …
Verkefnið miðar að því að opna augu ungmenna fyrir tækifærum í Höfn svo þau vilji snúa heim að námi loknu. mbl.is/Eyþór

Reykjavík ekki alltaf betri

Hugrún og Kristín segja viðhorfsvandamál einnig liggja að baki því að ungt fólk flytji frá landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Margir telji það ekki nógu gott að fara „bara“ í framhaldsskólann á Höfn (FAS) eða að hafa aldrei flust frá Hornafirði í einhvern tíma. Mikilvægt sé að uppræta slíkan hugsunarhátt og sýna ungmennum að það sé ekkert að því að vera áfram í sinni heimasveit langi þau til þess.

Það hafi oft gagnast þeim í fræðslunni að Kristín sé sjálf fædd og uppalin í Hafnarfirði og hafi flust til Hafnar aðeins 22 ára gömul, mörgum til mikillar furðu. Hugrún hafi sömuleiðis flust aftur heim í miðju námi og klárað það frá Höfn þrátt fyrir að það væri ekki hannað sem fjarnám.

„Við erum að sýna þeim að þú þarft að finna það sem þú fílar. Reykjavík er ekki bara betri,“ segir Kristín.

Efla virka samfélagsþátttöku

Verkefnið lýtur þó ekki einungis að því að sporna við atgervisflótta ungmenna heldur einnig að því að virkja unga fólkið í samfélaginu strax í kringum menntaskólaaldurinn.

„Við erum að valdefla þau og efla sjálfstraust til að taka þátt í lífinu og vera virkir samfélagsþátttakendur,“ segir Kristín.

Þekkingarsetrið hefur þegar haldið fjölda námskeiða fyrir ungmenni á Höfn og unnið náið með nemendafélagi FAS og ungmennaráði Hornafjarðar.

Námskeiðin hafi m.a. snúið að því að efla svokallaða „mjúka færni“ á borð við tjáningu, virka hlustun og samskipti ásamt málefnum tengdum samfélagsábyrgð eins og heimsmarkmiðunum, sjálfbærni og frumkvæði.

Námskeiðin séu ungmennunum að kostnaðarlausu enda sé alls ekki sjálfsagt fyrir ungt fólk á landsbyggðinni að geta sótt námskeið í Reykjavík sem mörg hver séu dýr, og þá eigi eftir að bæta við ferða- og gistingarkostnaði.

Halda starfastefnumót

Segir Hugrún einn hvatan á bak við námskeiðin vera að sömu rauðu þræðirnir hafi ítrekað komið upp í viðtölum og rýnihópum ungmenna síðan hún hóf störf hjá setrinu fyrir níu árum.

„Það segir okkur að samfélagið er í raun ekki búið að vera að bregðast við. Það er enn þá verið að tala um fordóma, slúður, að þau viti ekki hvernig þau eigi að bera sig að til að vera þátttakendur í samfélagi fullorðinna.“

Til að sporna við þeirri hugsun hafi þær brugðið á það ráð að halda starfastefnumót og frístundakynningu, en á því síðarnefnda voru yfir 40 félagssamtök sem kynntu starf sitt. Það hafi verið mikilvægur liður í að afsanna hugmyndir margra unglinga um að það sé „ekkert að gera“ í Hornafirði.

Þær reyni sömuleiðis að brýna fyrir ungmennunum mikilvægi þess að taka frumkvæði í litlu samfélagi og skapa sér og samfélaginu tækifæri.

„Það þarf að rækta í þeim að þau geti gert hluti og í svona litlu samfélagi þá er það bara oft auðveldara,“ segir Hugrún.

Fréttin birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 22. júlí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert