„Það er slökkvilið Fjallabyggðar sem að sér um þetta og þetta er í mjög góðu samstarfi við þá og þeir leggja þetta til hátíðarinnar að halda þetta froðufjör,“ segir Þórarinn Hannesson, einn viðburðarhaldara Síldarævintýrsins á Siglufirði, en þar byrjaði dagskrá dagsins á froðupartýi.
Nefnir Þórarinn í samtali við mbl.is að froðufjörið sé búið að vera partur af dagskrá hátíðarinnar síðan það var haldið á hátíðinni árið 2019.
Eins og sjá má á myndum er þar mikið fjör og ekki skemmir veðrið fyrir líkt og Þórarinn staðfestir. „Hér er bara sól og blíða. Gæti varla verið betra.“
Hvernig hefur helgin gengið á Siglufirði?
„Hún hefur gengið alveg frábærlega. Allt bara gengið eins og átti að gera. Veðrið bara alveg skaplegt. Smá rigning og vindur á köflum en það kom svona á réttum tímum. Það hefur verið yfirstandandi dagskrá hérna alveg síðan á fimmtudag og fullur bær af fólki og allir brosandi og kátir.“
Segir Þórarinn að dagskrá dagsins hafi byrjað með froðufjörinu fyrir börn og svo séu hoppukastalar inni í íþróttahúsinu.
„Svo verður lifandi tónlist í miðbænum og mikið líf í kringum Síldarminjasafnið þar sem að opnaði nýtt kaffihús í gær. Virkilega flott,“ segir Þórarinn og bætir við:
„Svo er bara líf hérna í öðrum söfnum bæjarins og sýningar í gangi og bara mjög gott mannlíf.“
Nefnir þá viðburðarhaldarinn að þyrla Landhelgisgæslunnar hafi kíkt í heimsókn í hádeginu.
„Það var svona smá rúsína í pylsuendanum í morgun. Við fengum tilkynningu um það að þyrla Landhelgisgæslunnar gæti komið og sýnt björgun hjá okkur. Birtust allt í einu klukkan hálf 12.“
Gaf Þórarinn mbl.is góðfúslegt leyfi til að birta myndir af björguninni.