Seldu metfjölda bollakaka

Salan gekk sérstaklega vel í ár.
Salan gekk sérstaklega vel í ár. mbl.is/Þorgeir

„Stemningin var alveg rosaleg,“ segir Bryndís Björk Hauksdóttir, skipuleggjandi hjá Mömmur og möffins, sem seldi í gær bollakökur fyrir tæpa eina og hálfa milljón króna til styrktar fæðingardeild sjúkrahússins á Akureyri.

Mömmur og möffins hafa undanfarin ár verið vinsæll liður í dagskrá hátíðarinnar Einnar með öllu á Akureyri, en sjálfboðaliðar komu fyrst saman til að baka bollukökur til styrktar fæðingardeildinni árið 2010. Bryndís segir að salan hafi gengið einstaklega vel í ár og að allar bollakökur hafi selst upp.

Bryndís Björk Hauksdóttir skipuleggur og starfar sem sjálfboðaliði fyrir Mömmur …
Bryndís Björk Hauksdóttir skipuleggur og starfar sem sjálfboðaliði fyrir Mömmur og möffins. mbl.is/Þorgeir

„Ég held, miðað við þær tölur sem við höfum, að það gæti verið að við höfum slegið sölumet núna,“ segir hún. Útskýrir hún að í fyrra hafi selst fyrir rétt rúmar 1,2 milljónir króna en í ár hafi Mömmur og möffins selt fyrir eina og hálfa milljón.

Tekur hún fram að endanlegar sölutölur liggi þó ekki fyrir þar sem enn eigi eftir að taka allar millifærslur með í reikninginn. Segir hún að á þriðjudaginn muni þau fara í bankann og fá þær upplýsingar á hreint.

Una sér vel í miðbænum

Salan hefur undanfarin ár farið fram í Lystigarðinum en var í gær á Ráðhústorginu í miðbæ Akureyrar. Bryndís segir Viðburðastofu Norðurlands hafa átt hugmyndina að flutningunum og Mömmur og möffins hafa tekið henni fagnandi.

„Ég held að þetta sé alveg komið til að vera,“ segir hún og nefnir að stemningin í bænum hafi verið rosaleg og mun fleira fólk mætt.

Lýsir hún því að lifandi bæjarlíf hafi hjálpað til við söluna og að það hafi breytt miklu að fólk þyrfti ekki að gera sér sérstaka ferð í Lystigarðinn til að njóta kræsinganna og styrkja málstaðinn.

Úrvalið af bollakökum var svo sannarlega ekki af verri endanum …
Úrvalið af bollakökum var svo sannarlega ekki af verri endanum á sölunni í gær. mbl.is/Þorgeir

Fjölskyldufólk vinnur óeigingjarnt starf

Salan í ár er sú fyrsta sem Bryndís skipuleggur en hún og Sigríður Ásta Pedersen tóku saman við skipulagningu sölunnar eftir síðasta viðburð. Sala Mömmur og möffins er sjálfboðaliðastarf og segir Bryndís að flestir sjálfboðaliðar séu foreldrar en börn þeirra hafi líka hjálpað til.

„Við vorum svolítið dugleg líka í að virkja börnin í að koma og þeim fannst alveg rosalega gaman að koma og fá að skreyta, baka og hjálpa til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert