Slapp með naumindum þegar brennan hrundi

Hér má sjá þegar brennan hrundi.
Hér má sjá þegar brennan hrundi. Skjáskot/TikTok

Dagur Arnarson, sjálfboðaliði á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum, átti fótum sínum fjör að launa þegar þjóðhátíðarbrennan hrundi í hvassviðrinu á föstudaginn.

Hann segist þó aldrei hafa verið í neinni raunverulegri hættu, en Dagur er einn svokallaðra brennupeyja og er hlutverk þeirra að sjá til þess að eldur sé í brennunni.

Hann segist þar að auki hafa verið meðvitaður um það að brennan myndi hrynja og því hafi hann náð að forða sér í tæka tíð. 

„Íkveikjan í brennunni klikkaði, sem varð til þess að við þurftum að fara aðra leið, en það gekk ekki alveg jafn vel og við ætluðum okkur, og við náðum ekki nógu miklum eldi sökum vindsins þetta kvöld,“ segir Dagur í samtali við mbl.is, en Vísir greindi fyrst frá.

Undirstöður gáfu sig sökum vinds

„Það var mikill vindur í dalnum sem blés í gegnum brennuna, sem varð til þess að það kviknaði ekki í brettunum í efsta hluta hennar, með þeim afleiðingum að undirstöðurnar gáfu sig og hún hrundi því í þessa átt,“ bætir hann við. 

 „Við vissum allan tímann að brennan myndi hrynja, og þegar það er ljóst hlaupum við í burtu, en brennan hrynur þegar er ég kominn hálfa leið niður brekkuna,“ segir Dagur.

Hann ítrekar að hann hafi ekki verið í neinu leyfisleysi þarna við brennuna og að þar að auki hafi hann verið með réttan varnarbúnað og fylgt öllum öryggisreglum.

@sverabjj

hetja á þjóðhátíð

♬ I NEED A HERO - allwqzd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka