Stærsti björgunarbíll landsins hagstæðari en snjóbíll

Nýji ofurtrukkurinn hjá Björgunarfélagi Hafnar í Hornafirði.
Nýji ofurtrukkurinn hjá Björgunarfélagi Hafnar í Hornafirði. Eyþór Árnason

Vegfarendur sem eiga leið hjá húsi Björgunarfélags Hornafjarðar reka eflaust margir upp stór augu við að sjá ofurtrukk sem stendur í innkeyrslunni um þessar mundir.

Um er að ræða sérsmíði félagsmanna á Höfn en bíllinn hefur verið hækkaður. Dekkin eru 58 tommur og er hann því stærsti björgunarbíll landsins. Svo hár raunar, að nota þarf stiga til að stíga um borð, þar sem enn er ekki búið smíða stigbretti á hann.

Blaðamaður ræddi við Finn Smára Torfason, núverandi formann félagsins, og Friðrik Jónas Friðriksson fyrrverandi formann.

Að sögn Finns var kominn tími til að endurnýja bíl sem sveitin átti fyrir og var hópur settur saman til að leggja mat á hvers kyns tæki yrði fyrir valinu.

„Þetta er kannski meira svona bíll sem er gaman að eiga frekar en bíll sem maður þarf að eiga. En það er samt alveg þörf á honum þegar við erum komnir upp á jökul,“ segir Finnur.

Friðrik Jónas Friðriksson, fyrrum formaður (t.v.) og Finnur Smári Torfason, …
Friðrik Jónas Friðriksson, fyrrum formaður (t.v.) og Finnur Smári Torfason, núverandi formaður björgunarfélagsins (t.h.). Eyþór Árnason

Frumsýna bílinn í október

Félagsmaður með reynslu af bílasmíði hafi stungið upp á að prófa stærri dekk. Sá heiti Ásgeir og hafi komið mikið að stækkun bílsins og verið einstaklega útsjónarsamur í þeim efnum, að sögn Friðriks.

Í bílnum verði GSM-sendir sem muni gera stórmun á svæðum þar sem símasamband er lítið sem ekkert.

„Þannig að við getum í raun keyrt upp á næsta fjall eða inn í næsta dal og kveikt á sendinum. Ég hef gantast með það að við ætlum að gera það og svo bara hringja í þann týnda,“ segir Friðrik og hlær.

Bíllinn er einstaklega góður til notkunar í jöklabjörgun og kemur í raun í stað snjóbíls, sem er að sögn þeirra Friðriks og Finns ekki einungis dýr að kaupa heldur líka dýr í rekstri.

„Við töldum það hagkvæmari lausn að gera þetta svona,“ segir Friðrik sem segir gallann við snjóbíla vera að ekki sé hægt að nota þá í fleiri en einum tilgangi, ólíkt trukknum.

Aðspurðir kveðast þeir sjá fram á að frumsýna lokaafurðina á alþjóðlegu ráðstefnunni Björgun, sem haldin verður í Hörpu í október, gangi allt eftir áætlun.

Opnun nýja hússins frestast

Þá er margt á döfinni hjá björgunarfélaginu en auk nýja bílsins eru áform um að reisa nýja björgunarmiðstöð í samstarfi við Slysavarnadeildina Framtíðina. Húsið sé mun stærra en litla miðstöðin þeirra sem sé alveg komin að mörkunum hvað varðar pláss undir búnað félagsins. Þar verði einnig veislusalur til leigu til að standa undir rekstrarkostnaði.

Húsið er nú í framleiðslu en beðið eftir að púði á jörðinni sígi. Segjast Friðrik og Finnur hafa vonast til að það yrði klárt um áramót, en útlit fyrir að það verði frekar næsta vor.

„Það var svona okkar draumur að geta haldið kaffi á sumardaginn fyrsta í nýju húsi, en það verður bara í bílasalnum,“ segir Finnur.

Frétt­in birt­ist upp­haf­lega í Morg­un­blaðinu þann 22. júlí.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert