Veðrið „ekki beint kræsilegt“

Gular viðvaranir eru í gildi víða um land næsta sólarhringinn.
Gular viðvaranir eru í gildi víða um land næsta sólarhringinn. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

„Það er náttúrulega heilmikið að gerast í kvöld og í nótt, þetta er ekki beint kræsilegt fyrir þessar útihátíðir,“ segir Hrafn Guðmundsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um leiðindaveður sem spáð er víða næsta sólarhringinn.

Hrafn segir að enn sé nokkuð óljóst hvernig veðrið verði í Vestmannaeyjum í kvöld og næsta sólarhring og þá sérstaklega hve þung rigning verði. Tekur hann þó fram að „það ætti að rigna þarna eitthvað duglega í kvöld.“

Nefnir hann að í nótt sé búist við hvassviðri sem líklega muni valda gestum Þjóðhátíðar, sem gista í tjaldi, óþægindum. Hrafn segir þó að á morgun sé gert ráð fyrir rólegra veðri og viðráðanlegra. 

Hættulegar aðstæður víða

Hrafn segir að leiðindaveðri sé spáð víða um land næsta sólarhringinn og tekur sem dæmi spá um mikla úrkomu á Suðausturlandi, Austfjörðum og Ströndum.

„Á þessum svæðum er náttúrulega aukin skriðuhætta næsta sólarhringinn og síðan dregur ekki úr úrkomunni fyrr en annað kvöld,“ útskýrir hann. Bætir hann við að einnig verði mikið um hvassviðri á þessum svæðum.

Tekur hann fram að líklega muni lægja til á þessum svæðum í nótt eða í fyrramálið en á morgun sé hvössum vindum spáð norðvestan til. Fólk skuli því varast að ferðast með húsbíl eða með aftanívagn í eftirdragi á morgun.

Veðurstofa Íslands hefur nú gefið út gula viðvörun vegna veðurs víða um land en varað er við veðri á Suðurlandi, Breiðafirði, Vest- og Austfjörðum, Suðausturlandi, Miðhálendi, Ströndum og Norðurlandi vestra.

Fyrstu viðvaranirnar tóku gildi klukkan 15 í dag, og síðustu falla úr gildi á miðnætti á mánudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert