Sigurjón Andrésson, bæjarstjóri í Hornafirði, segir uppbyggingu sveitarfélagsins í fullum gangi. Samfélagið sé ört vaxandi og uppbygging innviða mikil. Samfélagið sé vissulega breytt vegna uppvaxtar ferða- og kvikmyndaiðnaðarins á svæðinu. „Landslagið hérna er náttúrulega bara kvikmyndalandslag og er sviðsmynd ýmissa bíómynda, þáttaraða og auglýsinga,“ segir Sigurjón.
„En svo er náttúrulega líka smá galið að að svona lítið sveitarfélag sé með um 20 a la carte-eldhús,“ bætir hann við og skellir upp úr.
Sigurjón tók til starfa sem bæjarstjóri í Hornafirði fyrir tveimur árum og unir sér þar afar vel þrátt fyrir að vera nýr í sveitarfélaginu. Sjálfur er hann ættaður úr Eyjum og er búsettur í Flóahreppi.
Sigurjón tók á móti blaðamanni og ljósmyndara og veitti sýnisferð um Höfn til að sýna þá miklu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað á síðustu árum og þau áform sem eru á prjónunum hjá sveitarfélaginu.
Talsverðar breytingar á bæjarmyndinni eru í vændum en auk yfirstandandi brúa- og vegaframkvæmda yfir Hornafjarðarfljót stendur uppbygging nýs miðbæjar á Höfn einnig til og verða þar hótel, íbúðir og verslanir. Arkitektastofan Batteríið, sem stóð að hönnun miðbæjarins á Selfossi, stendur að hönnun nýja miðbæjarins á Höfn.
Mun nýi miðbærinn rísa á hafnarsvæðinu þar sem þegar eru vinsæl veitingahús en Sigurjón segir greinileg skil verða á milli nýja miðbæjarins og vinnusvæðis hafnarinnar, svo starfsemi sjávarútvegsins raskist ekki.
„Við sjáum svona samspilið milli ferðamannsins og sjávarútvegsins hér. Þetta er mjög skemmtilegt svæði sem við erum að vinna í að þróa,“ segir Sigurjón um hafnarsvæðið.
Ferðaþjónustan sé orðin önnur meginstoð atvinnulífsins á Höfn, samhliða sjávarútveginum, og sé oftar en ekki fyrsta sjávarútvegsþorpið sem ferðamenn heimsæki á ferð sinni um landið. Flesta daga ársins séu um það bil jafn margir ferðamenn og heimamenn í sveitarfélaginu öllu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu á laugardag, 3. ágúst.