Ísland er enn í hjarta mínu og huga

Tony Cook kemur oft í heimsókn til Íslands og heldur …
Tony Cook kemur oft í heimsókn til Íslands og heldur sambandi við gamla vini sína hér. Ljósmyndari/Sigtryggur Ari Jóhannsson

Bretinn Tony Cook kom hingað til lands árið 1975 aðeins 21 árs gamall til að vinna sem upptökumaður fyrir Hljóðrita í Hafnarfirði sem þá var fyrsta fjölrása hljóðupptökustúdíó hér á landi. Upphaflega stóð til að hann yrði aðeins í þrjá mánuði til að koma stúdíóinu í gang en mánuðirnir urðu fimm og að lokum ílengdist hann á Íslandi í sjö ár eða allt til ársins 1982.

Tony sannaði sig fljótt í starfi og þótti vandvirkur og úrræðagóður. Þrátt fyrir ungan aldur hafði hann þegar góða reynslu í faginu þegar hann kom hingað. Hann hafði m.a. unnið hjá Wessex Studio í London sem var með 24-rása stúdíó á meðan Hljóðriti var aðeins 8-rása stúdíó þegar það byrjaði.

Þar sem Hljóðriti var eina uppstökustúdíó sinnar tegundar á þessum tíma kom Tony að gerð flestra platna sem voru gefnar út á þessum árum eða eins og Tony sjálfur segir þá skiptu þær hundruðum.

Langaði að breyta til 

„Ég var að vinna hjá fyrirtæki sem heitir Wessex Studios sem var nokkuð virt og framsækið fyrirtæki. Á þessum tíma var það í ferli um að verða yfirtekið af öðru fyrirtæki, Chrysalis, og framtíðin var dálítið óljós, svo ég ákvað að líta í kringum mig eftir einhverju öðru.“

Tony segist þá hafa hringt í mann í bransanum sem þekkti til víða og hann hafi boðið honum tvo kosti, annað hvort starf í Suður-Afríku eða á Íslandi. Suður-Afríka á 8. áratugnum hafi ekki beint höfðað til hans svo hann sló til og ákvað að fara til Íslands.

Allt einfalt í sniðum í byrjun

Hugmyndin með því að ráða sig til Hljóðrita var að vera þar í þrjá mánuði til að sýna eigendum stúdíósins hvernig allt virkaði, en stúdíóið var á þessum tíma mjög einfalt 8-rása kerfi. En þessir þrír mánuðir urðu fimm mánuðir og fimm mánuðir urðu að lokum að sjö árum.

Hljóðriti opnaði í maí-júní 1975 eða um það leyti sem Tony byrjaði hjá þeim sem hann segir að hafi verið um miðjan júní. Morgunblaðið birti einmitt viðtal við hann að því tilefni 21. júní það ár þegar hann var nýkominn til landsins.

„Þetta var fyrsta fjölrása upptökustúdíó á landinu þó það hafi verið nokkuð einfalt í sniðum. En eigendurnir voru ekki miklum efnum búnir og ekki heldur þegar þeir réðust í að endurgera stúdíóið 1976 í 24-rása, en þó komust þeir af með að láta það virka með litlum tækjabúnaði. Þetta gekk mjög vel og þess vegna ílengdist ég svona lengi."

Við upptökur í endurgerðu upptökustúdíói Hljóðrita með Jóhanni G. Jóhannssyni
Við upptökur í endurgerðu upptökustúdíói Hljóðrita með Jóhanni G. Jóhannssyni Ljósmynd/Aðsend

Missti töluna á fjölda platna

„Já, ég giftist hérna íslenskri konu. Og skildi líka. En auðvitað varð ég ástfanginn af fólkinu hérna og landinu líka. Og eins og ég segi, að vera partur af einhverju svona, var spennandi. Ég missti töluna á því hvað ég hljóðritaði margar plötur, að hluta eða öllu leyti. En þær skipta hundruðum. Og svo eignaðist ég marga góða vini sem eru enn vinir mínir í dag.“

Við upptökur með Spilverki þjóðanna.
Við upptökur með Spilverki þjóðanna. Ljósmynd/Aðsend
Hljómsveitin Spilverk þjóðanna í upptökustúdíói Hljóðrita.
Hljómsveitin Spilverk þjóðanna í upptökustúdíói Hljóðrita. Ljósmynd/Aðsend

Tony segist halda góðu sambandi við strákana úr hljómsveitinni Eik. Einn af meðlimum hennar er Lárus Helgi Grímsson sem er mikill vinur Tonys og býr Tony oft hjá honum þegar hann kemur í heimsókn til Íslands, en það gerir hann reglulega.

Nánar má lesa viðtalið við Tony Cook í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert