„Meginatriðið er að vera með gott kaffi“

Alex Slusar og George Ududec.
Alex Slusar og George Ududec. mbl.is/Eyþór

Kaffiþyrstir landsmenn í leit að nýjum stað til að væta kverkarnar geta nú gert sér ferð á Hellu þar sem opnað hefur verið nýtt kaffihús, sem er þó í aðeins frábrugðnara formi en önnur.

Fyrir viku síðan opnaði American school bus café strætódyr sínar fyrir þeim sem eiga leið hjá en segja þó eigendur staðarins, Alex Slusar og George Ududec, að kaffihúsið verði líklegast ekki að fullu tilbúið fyrr en eftir tvær vikur.

Blaðamenn mbl.is renndu við hjá þeim félögum á Hellu á föstudaginn fyrir heitan bolla af kaffi og nánari upplýsingar.

Staðurinn enn að þróast

Segir George að enn sé einhver eilítil vinna eftir. Eigi þeir félagar eftir að bæta við hönnunina að innan og að auki séu þeir enn að læra og finna sig í nýju störfunum.

„Ég er ennþá að reyna að fullkomna listina á bakvið kaffi latte,“ segir George og hlær.

„Ég er að gera mitt besta til láta þetta líta vel út en kaffið er gott,“ bætir hann við.

Spurður hvaðan hugmyndin hafi komið að setja upp kaffihús í skólastrætó svarar George að hún hafi kviknað þegar þeir félagar voru að ferðast og stoppuðu í Vík.

Þar má finna kaffihúsið Skool Beans, sem einmitt býður upp á veitingaþjónustu í strætó, og hafi það veitt þeim félögum innblástur til að gera eitthvað svipað.

„Það er góður markaður fyrir þetta. Utan Reykjavíkur er mjög erfitt að finna gott gæðakaffi en við erum með espressó-vél frá Ítalíu,“ segir George og bætir við að þeir hafi fengið góðan stuðning frá Skool Beans þegar kom að gerð og rekstur staðarins.

George lagar Latté-bolla fyrir blaðamann sem getur vottað um að …
George lagar Latté-bolla fyrir blaðamann sem getur vottað um að gæðin voru til fyrirmyndar. mbl.is/Eyþór

Gott kaffi sé aðalatriðið

Nefnir George að upphaflega hafi þeir Alex ætlað sér að kaupa strætóbíl af ríkinu hér heima en það hafi reynst erfitt. Hafi þeir þá fundið þennan í Rúmeníu, sem er heimaland þeirra, keypt hann og flutt til landsins.

Segir George að aðalatriðið sé að vera með gott kaffi, en staðurinn muni þó einnig bjóða upp á bakkelsi og ýmiss konar veitingar. Matseðillin hafði aðeins verið hannaður degi fyrir komu blaðamannanna og enn var verið að þróa staðinn.

„Meginatriðið er að vera með gott kaffi og síðan vinnum við okkur út frá því. Til lengri tíma þá kannski breytist eitthvað og við bætum við en til að byrja með þá byrjum við smátt.“

Hönnun kaffihússins er virkilega skemmtileg en segja eigendurnir að enn …
Hönnun kaffihússins er virkilega skemmtileg en segja eigendurnir að enn eigi eftir að bæta einhverju við. mbl.is/Eyþór

Kann vel við landið, fólkið og allt

Aðspurður segist George hafa komið hingað til lands árið 2016 og Alex árið 2020.

„Ég kom til Íslands af því ég kunni vel við kerfið hérna. Það er gott fyrir starfsmenn og auðvelt að fá starf hérna,“ segir George og bætir við að hann hafi unnið á Gullfossi sitt fyrsta ár og fylgdu svo eftir fjögur ár á Egilsstöðum.

„Þetta er gott umhverfi. Ég kann vel við landið, ég kann vel við fólkið, ég kann vel við allt. Okkur langaði að gefa því tækifæri að opna okkar eigið fyrirtæki hérna. Það var flókið og það hjálpaði mikið að fá hjálp frá heimamönnum. Núna erum við bara að læra á þetta og þetta er góður staður til að byrja á,“ segir George að lokum.

Eins og fyrr segir verður staðurinn að fullu tilbúinn eftir rúmar tvær vikur. Staðurinn er þó þegar opinn og geta undirrituð staðfest að aðdáendur góðs kaffisopa verði ekki fyrir vonbrigðum er þeir stoppa í American school bus café fyrir litríkt umhverfi og volgan drykk.

Eigandinn Alex Slusar upplýsti að enn væri hægt að keyra …
Eigandinn Alex Slusar upplýsti að enn væri hægt að keyra strætóinn. Meðeigandin George vill þó helst haldast kyrr. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert