„Þetta er flott fyrir fólk sem vill komast yfir lofthræðslu,“ segir Haraldur Örn Ólafsson, einn forsprakka Fjallafélagsins, um nýjan járnstíg sem félagið hefur sett upp í Esjunni.
Stígurinn mun ekki opna formlega fyrr en 31.ágúst en var gönguhópur fenginn til að prófa stíginn í gær.
Myndir sem mbl.is fékk sendar frá Haraldi sýna vel stíginn og þá ótrúlegu leið sem hann býður upp á.
Segir Haraldur að viðbrögð hópsins við stígnum í gær hafi verið ótrúlega jákvæð.
„Fólk var gjörsamlega í skýjunum.“
Nefnir hann að hægt sé að fara mismunandi leiðir sem hjálpi þá þeim sem glími við vott af lofthræðslu.
„Fyrir lofthrædda er möguleiki að taka svona miserfiðar útgáfur af þessu. Ef þú vilt taka auðveldari nálgun á þetta þá eru möguleikar í því.“
Eins og fyrr segir opnar stígurinn ekki formlega fyrr en 31. ágúst og segir Haraldur að það sé einfaldlega verið að fínstilla hlutina. Viðbrögð hópsins í gær hafi þá farið langt fram úr hans væntingum.
„Það er alveg að ganga eftir það sem við vonuðumst eftir, að þetta yrði skemmtileg upplifun.“
Um verkið segir Haraldur að búið sé að vinna að því í tvö ár. Hefur hann farið í ferðir erlendis þar sem víðsvegar er boðið upp á svona ferðir og kviknaði þannig hugmyndin á að setja upp svona stíg hér heima.
„Við höfum alltaf trúað því að þetta yrði skemmtilegt og eitthvað sem fólk myndi hafa gaman af. Þessi dagur í gær var alveg að sannreyna það. Þetta verður mikil upplifun og vonandi fáum við sem flesta til að bóka ferð með okkur og koma í þetta.“
Segir Haraldur að hægt verði að bóka ferðir á vef félagsins þegar nær dregur að formlegri opnun stígsins og lofar hann mikilli upplifun.
„Þetta er ekkert ósvipað og að fara í jöklagöngu eða zip-line eða einhverja svona afþreyingu,“ segir Haraldur að lokum.