Óskar Arason, eigandi ferðafyrirtækisins Iceguide, segir uppbyggingu ferðaþjónustunnar í Hornafirði og við Jökulsárlón ábótavant.
Fyrirtæki Óskars býður upp á kajakferðir í Jökulsárlóni og Heinabergslóni ásamt leiðsögn en Óskar kveðst hafa verið sá fyrsti á landinu til að bjóða upp á slíkar ferðir á jökullónum og einn af þeim fyrstu til að vera með íshellaferðir.
Hann segir hlutverk Vatnajökulsþjóðgarðs óljóst og að það hafi skapað starfsóöryggi fyrir rekstraraðila við lónið, þar sem stofnunin veiti einungis starfsleyfi eitt sumar í einu.
Nú sé til skoðunar að bjóða rekstur við Jökulsárlón út en Óskar segir enga heimamenn með smærri rekstur geta keppt við stórfyrirtæki í slíku útboði. Hann telur stefnuleysi ríkja í ferðaþjónustunni á landinu, sem skorti alla framtíðarsýn.
„Því miður er þessi stofnun bara ekki búin að ná neinu haldreipi í því hver hennar tilgangur á að vera,“ segir Óskar en bætir þó við að hann sakist engan veginn við einstaka starfsmenn á svæðinu sem hann eigi í góðum samskiptum við.
Hann segir óvissuna sorglega í ljósi þess að þjóðgarðurinn hafi m.a. verið stofnaður af heimafólki úr sveitinni og eigi samkvæmt 4. grein í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð að hlúa að starfsemi og samfélaginu á svæðinu. Það hafi ekki verið bersýnilegt í stefnu þjóðgarðsins við Jökulsárlón, sem hefur heyrt undir þjóðgarðinn frá 2017.
Óskar var þá byrjaður með sína starfsemi á svæðinu og fékk því áframhaldandi rekstrarleyfi á sínum tíma.
„Síðan þá hef ég ítrekað óskað eftir að fá eitthvert framtíðarleyfi til einhverra ára, til að ég geti byggt upp mína starfsemi öllum til hagsbóta,“ segir Óskar.
Hann fái aftur á móti á ári hverju svör um að leyfin séu gefin út eitt sumar í einu en brátt hefjist vinna við að koma betra leyfisveitingakerfi á koppinn. Enn bóli ekkert á því og segir Óskar orðið nær ómögulegt að halda rekstrinum áfram vegna óvissunnar.
Nú þegar leyfi þess sem hafi verið lengst með starfsemi í bátaferðum á lóninu sé að renna út virðist sem ríkið ætli að láta verða af útboði á uppbyggingu og rekstrarleyfum við Jökulsárlón. Það gefi stærri rekstraraðilum, sem engin tengsl hafi við landsvæðið, forskot á að taka yfir reksturinn og uppbygginguna sem heimamenn hafi unnið að í áratugi.
„Ég er ansi hræddur um að lítið fyrirtæki eins og mitt hafi ekkert bolmagn til samkeppni þegar stærri aðilar koma inn í þennan bransa,“ segir Óskar.
„Sem dæmi er Heinabergið, staður sem nánast enginn hefur komið á, það er farið að glitta í það að mögulega fari starfsemin þar í útboð. Þarna er í raun og veru verið að taka vöru og þjónustu, sem ég er búinn að byggja upp í yfir tíu ár í litlu fyrirtæki, og setja hana á uppboð.“
Óskar segir víða pott brotinn í ferðaþjónustu á Íslandi og brýnt að menningar- og viðskiptaráðuneytið, sveitarfélagið og rekstraraðilar leggist á eitt og stuðli að sjálfbærri ferðamennsku sem Ísland geti raunverulega staðið undir án þess að „ganga á stofninn“.
„Mér finnst engin hugsjón hafa verið í þessum málum. Þessi bransi er búinn að byggjast upp hratt og menn hafa svolítið hoppað í djúpu laugina með stóra hamarinn,“ segir Óskar.
„Það þarf alltaf að keyra færibandið áfram. En mér finnst keðjan dálítið vera að slitna.“
Hann nefnir sem dæmi þjónustuskerðingu við íbúa á svæðinu og innflutt vinnuafl sem fái lítil færi á að mynda tengsl. Erlent vinnuafl sé flutt inn í stórum stíl til að anna þjónustuþörf ferðaiðnaðarins, sem búi í gámum og yfirgefi landið með einhverja aura eftir nokkra mánuði en sjái sér ekki hag í að setjast hér að.
„Þetta eru þessi skammtímasjónarmið sem eru orðin ansi ráðandi í ferðaþjónustunni á Íslandi.“
Fréttin birtist upphaflega í Morgunblaðinu þann 25. júlí.