Segir sóðaskapinn ekki íbúum að kenna

Rusl var á víð og dreif fyrir utan stúdentagarðana Sögu, …
Rusl var á víð og dreif fyrir utan stúdentagarðana Sögu, þar sem Hótel Saga var áður. Samsett mynd

„Ég bara fagna umræðunni, að þessi færsla hafi verið birt, en það hefði verið hægt að gera það með jákvæðari tón,“ segir Hlynur Einarsson, íbúi í stúdentagörðunum Sögu, en sóðaskapur við sorptunnur Sögu var gagnrýndur í Facebook-færslu í gær.

Teitur Atlason, íbúi í Vesturbæ Reykjavíkur, birti færslu á Facebook-hópi íbúa Vesturbæjar í gær um að sorp væri á víð og dreif á afgirtu svæði fyrir utan stúdentagarðana. Gagnrýndi hann umgengni íbúa Sögu harðlega.

Hlynur svaraði færslunni í gærkvöld þar sem hann neitaði að vera kallaður sóði og talaði frá sjónarhóli íbúa Sögu. Í færslunni tekur hann undir að umhirðan mætti vera betri í kringum Sögu en áréttir að sóðaskapurinn sé ekki íbúum að kenna.

Hlynur nefnir að á síðustu vikum hafi sorphirðu ekki verið sinnt nægilega vel og af þeim sökum hafi íbúar ekki átt annarra kosta völ en að skilja rusl við tunnurnar.

Svo koma mávarnir að tæta allt og rífa, sem gerir illt verra. Þau sem eru ábyrg fyrir sorphirðu við Sögu þurfa augljóslega að standa sig miklu betur,“ segir hann og bætir við að varla sé hægt að ætlast til þess að íbúar geymi ruslið inni „með tilheyrandi lykt og sóðaskap.“

Sorphirðu Reykjavíkurborgar ábótavant

Hlynur lýsir því í samtali við mbl.is að fyrst hefði hann ekki ætlað að svara færslunni en eftir samtöl við aðra íbúa Sögu þá hefði honum fundist hann knúinn til að mótmæla alhæfingum Teits. Hann hefði viljað koma því á framfæri að sóðaskapurinn væri ekki íbúunum að kenna.

„Þetta er í umsjá Reykjavíkurborgar og þau eru bara ekki að koma nógu oft, sem náttúrulega veldur miklum sóðaskap,“ segir hann.

Hlynur segir íbúana hafa borið málið undir Félagsstofnun stúdenta en fengið þau svör að FS annist þrif í kringum svæðið en Reykjavíkurborg sjái um sorphirðuna sjálfa.

Íbúarnir hafi fyrst haft samband við FS síðasta sumar og þá hafi verið tekið til en að sögn Hlyns er mjög langt síðan það var síðast gert.

Rusl fýkur og er á víð og dreif á svæðinu.
Rusl fýkur og er á víð og dreif á svæðinu. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum reynt að vera í bandi við Reykjavíkurborg en við fáum bara engin jákvæð viðbrögð þaðan – þetta er bara tekið þegar þetta er tekið,“ segir hann. Spurður hvort hann haldi að leysa mætti málið með því að fjölga sorptunnum við stúdentagarðana svarar hann:

„Já algjörlega, um leið og sorphirðunni er sinnt almennilega, þá mun þetta ekki koma upp aftur.“

Neikvæðnin fór í taugarnar

Hlynur tekur fram að hann fagni færslu Teits að því leytinu til að hún hafi skapað umræðu um vandamál sem þurfi að leysa, en að tónninn hefði ekki þurft að vera eins neikvæður og hann var.

„Það var bara neikvæði tónninn sem fór í taugarnar mínar og lét mig vilja verja íbúa hússins og stúdenta þar sem hann var að alhæfa um alla stúdenta – að við værum allir sóðar og kynnum heldur ekki að flokka,“ segir hann og bætir við að lokum að í íbúðum Sögu sé aðstaða til sorpflokkunar til fyrirmyndar og að íbúar séu duglegir að flokka rusl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert