Bílaleigubíll, sem stóð við tjaldsvæðið við Kerlingarfjöll fyrr í dag tilheyrir ekki göngumönnunum sem leitað hefur verið að á svæðinu í dag.
Þetta segir Bergvin Snær Andrésson, vettvangsstjóri björgunarsveita við leitina í Kerlingarfjöllum, í samtali við mbl.is.
Fyrr í dag fannst mannlaus bílaleigubíll við tjaldsvæðið „Highland Base“ í Kerlingarfjöllum sem var talinn vera í leigu ferðamannanna og voru sporhundar kallaðir út í kjölfarið. Hins vegar sýnir myndefni úr eftirlitsvélum við bílastæðið tvo ferðamenn fara úr bílnum í morgun, en ferðamennirnir sem leitað er að hafa verið týndir síðan í gærkvöldi.
Neyðarlínunni barst tilkynning frá göngumönnunum klukkan 22.30 í gærkvöldi þar sem þeir sögðust vera fastir í helli.
Leit hefur staðið yfir síðan seint í gærkvöldi en hefur borið lítinn árangur. Björgunarsveitir frá öllu Suðurlandi, Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra hafa verið boðaðar út til að aðstoða við leitina í kvöld, nótt og í fyrramálið. Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.