Bregðast við sóðaskapnum með djúpgámum

Sorp hafði flætt upp úr tunnum við Sögu á fimmtudaginn.
Sorp hafði flætt upp úr tunnum við Sögu á fimmtudaginn. Ljósmynd/Aðsend

Kvartanir um rusl í kringum sorptunnur stúdentaíbúðanna í gamla Hótel Sögu hafa vakið athygli undanfarið.

Upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta gerir ráð fyrir að djúpgámum verði komið fyrir í mánuðinum við Sögu, eins og húsnæðið nefnist nú, til að bregðast við sóðaskapnum.

Heiður Anna Helgadóttir, þjónustustjóri og upplýsingafulltrúi FS, segir í samtali við mbl.is að stofnuninni hafi nýlega borist nokkrar kvartanir um umgengni í sorptunnuskýli við Sögu.

Lýsir hún því að þegar slíkar ábendingar berist séu starfsmenn stofnunarinnar sendir til að taka til.

Ef sorp ratar ekki í tunnu þá fýkur það gjarnan …
Ef sorp ratar ekki í tunnu þá fýkur það gjarnan og dreifist um svæðið. Ljósmynd/Aðsend

Nefnir hún að auk skjóts viðbragðs við kvörtunum þá kanni þeir sem sjá um fasteignir FS mjög reglulega hvernig sé umlits og hreinsi til ef sóðalegt er. Tekur hún þó fram að rusl virðist oft safnast saman á mjög skömmum tíma.

„Þeir fóru til dæmis á þriðjudaginn og hreinsuðu – fyrir viku að vísu – en svo var ástandið svona sem sagt seinna í vikunni,“ segir hún en íbúi í Vesturbæ Reykjavíkur kvartaði fyrir helgi undan sóðaskap við Sögu og sýndi myndir sem hann hafði tekið þar á fimmtudaginn.

Djúpgámar væntanlegir seinnipart ágúst

Sorphirða við Sögu hefur áður ratað í fréttir en í september á síðasta ári var einnig vakin athygli á slæmri umgengni þar. Sorp flæddi þá upp úr tunn­um og var mikið af dóti og drasli í kring, eins og nú í ágúst. 

Heiður sagði þá í viðtali við mbl.is að til stæði að koma fyrir djúpgámum við Sögu í tilraun til að bæta úr málum. Spurð hver staðan sé á þeim framkvæmdum svarar Heiður að þær séu hafnar.

„Það er bara allt í farvegi og mér skilst að þeir eigi að koma upp bara núna á næstu vikum,“ segir hún og bætir við að hún voni að tilkoma gámanna muni verða til þess að snyrtilegra verði umlits við Sögu.

Heiður tekur fram að framkvæmdirnar séu að vissu leyti háðar öðrum framkvæmdum Háskóla Íslands á svæðinu, sem gætu orðið til einhverra tafa á verklokum. 

„En það er stefnt að því, eins og staðan er í dag, að taka þá í notkun núna 20. ágúst,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert