Hinsegin dagar hefjast í dag með Opnunarhátíð sem fram fer í Grósku klukkan 20:00 í kvöld. Hátíðin fagnar í ár 25 ára afmæli á þessu ári, og öllu verður tjaldað til, að sögn Helgu Haraldsdóttur, formanns Hinsegin daga.
„Bashar Murad hefur Opnunarhátíðina í ár á því að syngja Somewhere over the rainbow og Hanna Katrín Friðriksson flytur hátíðarræðu við sama tilefni. Fjöldi hæfileikafólks stígur á svið og svo endum við dagskrá opnunarhátíðarinnar á laginu Ég er eins og ég er. Það kemur öllum í rétta gírinn fyrir vikuna framundan“
Yfirskrift Hinsegin daga 2024 er Stolt er styrkur og segir Helga það vera mikilvægt fyrir hinsegin fólk að geta fundið styrk í stolti. „Á þeim tuttugu og fimm árum sem Hinsegin dagar hafa verið haldnir hefur orðið mikil breyting í samfélaginu og raunveruleiki hinsegin fólks annar en hann var. Þegar fyrsta hátíðin var haldin mættu 1.500 manns á Ingólfstorg, sem þótti mikið þá, en í ár búumst við við að um 100.000 manns mæti á Gleðigönguna sem fer fram í miðbænum næsta laugardag,” segir Helga í samtali við Morgunblaðið.
Hinsegin dagar verða formlega settir í hádeginu í dag við regnbogamálun, en í þetta sinn verður málaður regnbogi framan við Hinsegin félagsmiðstöð Tjarnarinnar og Samtakanna '78 við Austurbæjarskóla. Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Hrefna Þórarinsdóttir, forstöðukona félagsmiðstöðvarinnar og Snæ Humadóttir ungmenni, flytja stutt ávörp. “Það er vert að minnast á að Hinsegin félagsmiðstöð er fjölsóttasta félagsmiðstöðin í Reykjavík ef miðað er við mætingu á einstaka opnanir og því gríðarlega mikilvæg félagsmiðstöð."
„Það hefur gengið ótrúlega vel að skipuleggja vikuna, og stefnir allt í frábæra viku með mörgum spennandi og áhugaverðum viðburðum,“ segir Helga. Nóg af fjölbreyttum viðburðum verða alla vikuna, en svo dæmi sé tekið fer fram svokölluð Regnbogaráðstefna á fimmtudaginn.
„Þar erum við með átta ólíka fræðsluviðburði, ég mæli með að fólk kynni sér hana en hún er fyrir öll að mæta á og fræðast," segir Helga.
Hinsegin dagar enda svo á hápunkti vikunnar með Gleðigöngunni á laugardag og Útihátíð Hinsegin daga, sem fer fram í Hljómskálagarðinum um þrjúleytið rétt eftir gönguna. Dagskrá hátíðarinnar verður táknmálstúlkuð og streymt. Þar koma fram meðal annars Bashar Murad, Saga Matthildur, Una Torfadóttir og Páll Óskar. Þá flytur Halla Tómasdóttir, nýkjörinn forseti Íslands, ræðu.