Ekki er víst að bíllinn sem fannst mannlaus á tjaldsvæðinu við Kerlingarfjöll sé í leigu ferðamannanna tveggja sem leitað er á svæðinu og eru taldir fastir inni í helli eða sprungu.
Vettvangsstjóri björgunarsveita á svæðinu segir að myndefni úr öryggismyndavélum við bílastæðið bendi til þess að bílaleigubíllinn gæti tilheyrt öðrum ferðamönnum sem kunna að hafa komið á svæðið í morgun.
„Það virðist líklega vera að renna út í sandinn. En við ætlum bara að leita af okkur allan grun,“ segir Bergvin Snær Andrésson, vettvangsstjóri björgunarsveita við leitina í Kerlingarfjöllum.
Bergvin tekur þó fram að bíða þurfi frekari staðfestingar.
Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, kannaðist þó ekki við það að grunsemdirnar væru runnar út í sandinn. Hann segir þó að það sé ekki staðfest að bíllinn sé í leigu ferðamannanna.
„Við erum núna að skoða þetta út frá bíl sem ekki er hægt að staðfesta einhvern í,“ segir lögregluþjónninn.
Hann kannast aftur á móti ekki við myndefni sem sýni fram á að bíllinn tilheyri öðrum.
„Ef þetta er ferðafólk sem lagði af stað í morgun þá kemur það örugglega aftur í dag. En við ætlum ekki að útiloka neitt strax,“ segir Bergvin hjá björgunarsveitunum.
Leitin hefur staðið yfir síðan í kl. 22.30 gærkvöldi, þegar Neyðarlínunni barst stafræn tilkynning frá göngumönnunum þar sem þeir sögðust vera fastir í helli. Nú þykir mögulegt að þeir hafi fests í jökulsprungu enda fáir hellar á svæðinu.
Tilkynningin var skrifuð á ensku að sögn Bergvins.
Einu vísbendingarnar sem liggja því fyrir að svo stöddu eru tilkynning til Neyðarlínunnar, IP-tala sem fylgdi skilaboðunum, staðsetningarhnit sem hafa reyndar engu skilað. Hvorki yfirlögregluþjónn né vettvangsstjóri kváðust þekkja deili á ferðamönnunum.
Veistu meira? Áttu myndir af vettvangi? Endilega sendu okkur erindi á frettir@mbl.is