Halla og fjölskylda flytja ekki strax á Bessastaði

Forsetafjölskyldan Halla Tómasdóttir, Björn Skúlason og börn þeirra Tómas Bjartur …
Forsetafjölskyldan Halla Tómasdóttir, Björn Skúlason og börn þeirra Tómas Bjartur og Auður Ína í stofunni heima. Þar munu þau þurfa að dvelja aðeins lengur þar til viðgerðum lýkur á Bessastöðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aðsetur forseta Íslands tók hlýlega á móti nýjum íbúum þegar Halla Tómasdóttir og fjölskylda stigu sín fyrstu skref þar inn. 

Reyndar getur fjölskyldan ekki flutt strax á Bessastaði þar sem viðgerðir standa enn yfir á íbúðarhúsinu þar.

En Halla kveðst spennt fyrir að flytja inn í nýja heimilið.

„Ábyrgð og heiður í senn.“ Þannig lýsir Halla tilfinningunni sem hún fann þegar hún gekk inn á Bessastaði í fyrsta sinn sem forseti lýðveldisins.

„Embættið er stærra en hver einstaklingur sem gegnir því, að mínu mati. Ég held að maður verði þar af leiðandi að mæta því af mikilli auðmýkt,“ segir hún í samtali við blaðamann mbl.is.

Enn ekki orðið að heimili

Kveðst Halla enn ekki vera búin að fá tilfinninguna um að Bessastaðir séu orðnir heimili sitt.

„En húsið tók hlýlega og fallega á móti okkur og þarna er einstakt starfsfólk sem við fáum að vinna með í þessu þjónustuhlutverki við þjóðina,“ segir Halla.

Fjölskyldan bíður spennt eftir því að þessu „millibilsástandi“ ljúki. „Maður fær kannski ekki alveg á tilfinninguna að maður sé heima fyrr en það gerist,“ segir hún.

„En við sungum „Ég er kominn heim“ í Bessastaðastofu,“ bætir Halla við en á fimmtudagskvöldið bauð hún ungum stuðningsmönnum sínum á Bessastaði að lokinni innsetningarathöfn í Alþingishúsinu.

Það lítur því út fyrir að börn hennar tvö, Auður Ína og Tóm­as Bjart­ur, fái ekki að gista á Bessastöðum fyrr en í jólafríinu enda leggja þau bæði stund á nám vestanhafs.

Forsetagæi, forsetapeyi, forsetamaki eða forseta-maki?

„Ég er svo lánsöm kona að vera einstaklega vel gift,“ segir Halla spurð að því hvernig eiginmanni hennar, Birni Skúlasyni, lítist á nýja lífið. Hún nefnir að mikil umræða hafi spunnist um hvað titla skuli eiginmann forseta.

Hún nefnir að einn af forverum sínum, Vigdís Finnbogadóttir, hafi stungið upp á titlinum „forsetagæinn“ þegar hjónin leituðu hennar álits. „Ég held að hann kunni best við tillögu Vigdísar,“ segir hún um eiginmann sinn.

Þá hlaut hann einnig titilinn „forsetapeyi“ þegar þau heimsóttu Vestmannaeyjar á föstudag.

„Forsetamaki“ hafi einnig komið til greina en það var út úr myndinni þegar þau fréttu að því að það væri sushi-réttur á einhverjum veitingastað hér á landi.

„Ég veit ekki alveg hvort það gangi upp,“ segir Halla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert