Halli, Palli, Bubbi og fleiri styðja Yazan

Margir þjóðþekktir Íslendingar standa með Yazan.
Margir þjóðþekktir Íslendingar standa með Yazan. Samsett mynd

Hópur stuðningsfólks hins 11 ára Yazans Tamini hefur birt yfirlýsingu þar sem íslensk stjórnvöld eru hvött til að hætta við brottvísun hans úr landi en 821 manneskja hefur ritað nafn sitt undir yfirlýsinguna.

Margt þjóðþekkt fólk má finna á lista þeirra sem skrifað hafa undir yfirlýsinguna en sem dæmi má nefna Harald Þorleifsson, Pál Óskar Hjálmtýsson, Bubba Morthens, Halldóru Geirharðsdóttur, Unu Torfadóttur og Loga Pedro Stefánsson.

„Það sem Yazan er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang,“ eru upphafsorð yfirlýsingarinnar, en Yazan er með alvarlegan vöðvarýrnunarsjúkdóm og var synjað um vernd á Íslandi. Hefur því staðið til að vísa honum og fjölskyldu hans úr landi nú eftir verslunarmannahelgi.

Hagsmunir barna skuli settir í forgang

Hópur stuðningsfólks Yazans gengur undir nafninu Vinir Yazans og birti yfirlýsinguna í dag. Segir þar að íslenskum stjórnvöldum beri að gera betur og hafa í huga barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem kveðið er á um að það sem er barni fyrir bestu skuli alltaf hafa forgang.

„Það er því satt og rétt að við eigum að liðsinna Yazan hér á landi. Þessi 11 ára drengur er með sjaldgæfan vöðvarýrnunarsjúkdóm, Duchenne, og nýtur heilbrigðisþjónustu á Íslandi sem læknar staðfesta að megi ekki rjúfa,“ segir í yfirlýsingunni.

„Við flutning hans frá landinu skerðist þjónustan verulega og setur heilsu og líf Yazans í hættu. Það yrði brot á rétti hans til að lifa, þroskast, njóta verndar, og umönnunar í samræmi við aldur og þroska.“

Einnig er vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í yfirlýsingunni, sem segir „að í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skuli fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert