Hundsa ítrekuð erindi Persónuverndar

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og fyrrverandi …
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar, og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Samsett mynd

Mennta- og barnamálaráðuneytið og Menntamálastofnun, nú Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, hafa ítrekað hundsað erindi Persónuverndar.

Í erindunum er beðið um upplýsingar um Innu, upplýsingakerfi framhaldsskóla, og óskaði Persónuvernd fyrst eftir svörum frá ráðuneytinu í júní árið 2022. Síðan hefur beiðnin verið ítrekuð alls fjórum sinnum, nú síðast í janúar.

Eftir fyrstu beiðnina fór ráðuneytið fram á svarfrest sem það nýtti sér þó aldrei. Raunar hefur svar ekki enn borist.

Þetta kemur fram í bréfi á vef Persónuverndar þar sem stofnunin veitir leiðbeinandi svar til mennta- og barnamálaráðuneytisins, Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, og Advania um ábyrgð á vinnslu persónuupplýsinga í Innu.

Persónuvernd taldi óljóst hver bæri ábyrgð á Innu og vildi bæta úr því í ljósi þess hversu margir einstaklingar eru undir í upplýsingakerfinu og hversu víðfeðm notkun þess er. 

Óskuðu eftir fresti en svöruðu aldrei

Persónuvernd ákvað að hefja frumkvæðisathugun um ábyrgð á Innu, sem eins og áður segir er upplýsingakerfi sem framhaldsskólar nota.

Persónuvernd sendi ráðuneytinu fyrst bréf þann 7. júní árið 2022 þar sem skýringa var óskað. Rúmum tveimur mánuðum síðar, eða 24. ágúst 2022, fór ráðuneytið fram á að fresturinn til að svara yrði framlengdur.

Persónuvernd framlengdi svarfrestinn til 8. september sama ár en ekkert svar barst þó frá ráðuneytinu innan framlengda tímarammans.

Fór það svo að Persónuvernd ítrekaði erindi sitt með bréfi tæpu ári síðar, eða 30. júní 2023. Var bréfinu þá einnig beint til Menntamálastofnunar, nú Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, og Advania.

Svarleysi stjórnvalda á sviði menntamála er átalið í bréfi Persónuverndar.
Svarleysi stjórnvalda á sviði menntamála er átalið í bréfi Persónuverndar. mbl.is/ÞÖK

Advania svaraði en stofnunin og ráðuneytið ekki

Advania svaraði erindinu einum og hálfum mánuði síðar, þann 15. ágúst sama ár.

Enn svöruðu hvorki Menntamálastofnun né ráðuneytið.

Persónuvernd ítrekaði erindi sitt við bæði stofnunina og ráðuneytið í þrígang næstu mánuði með bréfum 2. nóvember 2023 og 21. desember sama ár, svo og í tölvupósti 15. janúar 2024.

Ráðuneytið og stofnunin létu þó ekki segjast og svöruðu engu.

Svarleysið ámælisvert

Persónuvernd gafst að lokum upp en í bréfi stofnunarinnar segir að hún hafi ekki talið tilefni til frekari ítrekana. Veitti stofnunin leiðbeinandi svar um ábyrgð á einstökum hlutum tengdum Innu á grundvelli svarsins sem Advania veitti.

Bréfi Persónuverndar lýkur á eftirfarandi orðum:

„Að lokum skal tekið fram að svarleysi mennta- og barnamálaráðuneytisins og Menntamálastofnunar við beiðnum Persónuverndar um skýringar og gögn er að mati stofnunarinnar ámælisvert, en jafnframt verður að gera ráð fyrir að hinni nýju Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafi, sem arftaka Menntamálastofnunar, verið kunnugt um beiðnir Persónuverndar.

Má í því sambandi nefna að forstjóri Menntamálastofnunar varð jafnframt forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu á grundvelli 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum um miðstöðina nr. 91/2023, auk þess sem miðstöðin tók við eignum, réttindum og skyldum Menntamálastofnunar, sbr. ákvæði III til bráðabirgða.

Jafnframt skal hins vegar tekið fram að Persónuvernd telur ekki, eins og hér háttar til, að sérstakt tilefni gefist til að kanna beitingu viðurlagaheimilda stofnunarinnar vegna umrædds svarleysis, þ.e. einkum á grundvelli 4. tölul. 3. mgr. 46. gr. laga nr. 90/2018.“

Trassað að skila skýrslu og krafinn um svör

Ráðuneytið hefur einnig trassað í fleiri ár að skila skýrslu um fram­kvæmd skóla­starfs í grunn­skól­um, sem því ber að gera samkvæmt lögum á þriggja ára fresti.

Hefur umboðsmaður barna ítrekað minnt ráðuneytið á þetta án þess að svör hafi fengist. Ráðherrann Ásmundur Einar Daðason sagðist í maí árið 2022 myndu skila skýrslunni fyrir lok þess árs.

Skýrslunni hefur ekki enn verið skilað. Síðasta skýrsla sem ráðuneytið skilaði tók til skólaáranna 2010-2016.

Umboðsmaður barna hefur einnig krafið ráðherrann um svör í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is um yfirlýst áform hans um nýtt námsmat í stað samræmdra prófa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert