Hvert verður skjaldarmerki nýs forseta?

Lengi hefur tíðkast að danakonungur eða -drottning sæmi aðra þjóðhöfðingja …
Lengi hefur tíðkast að danakonungur eða -drottning sæmi aðra þjóðhöfðingja heiðursmerki fílaorðunnar. Samsett mynd/Embætti forseta Íslands/Eyþór Árnason

Löng hefð er fyrir því að þeir þjóðhöfðingjar sem halda til Danmerkur í opinberum erindagjörðum, séu sæmdir riddaramerki dönsku fílaorðunnar (e. Elefantordenen).

Orðan er æðsta heiðursmerki Danaríkis og á rætur að rekja til 15. aldar. Hún er veitt þjóðhöfðingjum og öðru mektarfólki og því voru allir forsetar Íslands, að Sveini Björnssyni undanskildum, sæmdir orðunni þegar þeir héldu í sína fyrstu opinberu heimsókn til landsins.

Orðumerkið sjálft er afar virðulegt en það er í formi lítils fíls sem er gerður úr gulli. Ásamt fílnum fá orðuhafar (sem einnig fá nafnbótina riddarar), lítið barmmerki, sem er skreytt ýmsum eðalsteinum. Það merkilegasta við orðuna er þó tvímælalaust það, að sérstakur skjöldur fylgir orðunni, en skjöldinn prýðir persónulegt skjaldarmerki sem hannað er af orðuhafanum hverju sinni. 

Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti, og frú Eliza Reid, forsetafrú, …
Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti, og frú Eliza Reid, forsetafrú, með orðuskjöld Guðna sín á milli. Ljósmynd/Embætti forseta Íslands.
Orðuskjöldur Guðna Th. Jóhannessonar, fyrrverandi forseta.
Orðuskjöldur Guðna Th. Jóhannessonar, fyrrverandi forseta. Ljósmynd/Embætti forseta Íslands.

Hlyntréslauf og akkeri

Guðni Th. Jóhannesson, fyrrverandi forseti, var sæmdur fílaorðunni af Margréti Þórhildi, Danadrottningu árið 2017, en skjaldarmerki hans var síðar afhjúpað árið 2022 og er nú að finna í Riddarakapellu Friðriksborgarhallar í Kaupmannahöfn. Í merki Guðna kennir ýmissa grasa, en þar má sjá ýmis tákn og aðra hluti, sem þykja einkennandi fyrir hans persónu. 

Á skjaldarmerki Guðna má því t.a.m. sjá hlyntréslauf og fimm akkeri, en laufið táknar eiginkonu hans, Elizu Reid og akkerin börn þeirra fimm. Þórshamar fyrir miðju skjaldarins er sömuleiðis tákn fyrir atorku hans og þrótt, en bókin sem hamarinn hvílir á, er einnig vísun í fyrri fræðistörf hans. Öldurnar á skjaldamerkinu vísa svo í hafið, og tengsla þess við forfeður hans, sem margir voru sjómenn.

Latnesk einkennisorð prýða einnig skjöldinn, en þau eru: „Tibi ipso esto fidelis“, sem á íslensku útleggst: „Þér sjálfum vertu trúr“. Guðni og þeir Ólafur Ragnar Grímsson og Ásgeir Ásgeirsson, fyrrverandi forsetar, völdu sér einkennisorð með sínum skjaldarmerkjum. 

Fábrotnari merki fyrri forseta

Í samanburði við skjaldarmerki fyrri forseta, má segja að merki Guðna sé sérstaklega merkingarhlaðið, en þau sem fyrr komu eru öllu fábrotnari. Á skjaldarmerki Ólafs Ragnars má þó sjá goshver, með latnesku einkennisorðunum „Vires Islandiae“, þ.e. Máttur Íslands. 

Teikningar af skjaldarmerkjum fyrri forseta, í tímaröð. Merki Ásgeirs Ásgeirssonar …
Teikningar af skjaldarmerkjum fyrri forseta, í tímaröð. Merki Ásgeirs Ásgeirssonar er lengst til vinstri. Ljósmynd/Embætti forseta Íslands.

Ekki liggur fyrir hvenær fyrsta opinbera heimsókn Höllu Tómasdóttur, nýkjörins forseta, til Danmerkur verður, en í svari frá embætti forseta Íslands við fyrirspurn mbl.is, segir þó að viðbúið sé Halla fái einnig skjöld sér til heiðurs. 

Skjöldurinn er geymdur í Riddarakapellu Friðriksborgarhallar.
Skjöldurinn er geymdur í Riddarakapellu Friðriksborgarhallar. Ljósmynd/Embætti forseta Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert