Líðandi sumar er svipað og 2018

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur. mbl.is/Eyþór, Sigurður Bogi Samsett mynd.

Líðandi sumar þar sem rigning hefur verið víða um land svo dögum og jafnvel vikum skiptir er um margt hliðstæða þess sem gerðist árið 2018. Þá voru langvarandi rigningar út júlímánuð sunnanlands og vestan, en tíðarfar síðan miklu betra þegar komið var fram í ágúst. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.

„Í hinu stóra samhengi sagt og litið yfir langan tíma hafa flest sumur á Íslandi síðustu áratugina bæði verið sólrík og góð,“ tiltekur Einar.

Veðurfar skráð út frá heyskap

Einhverjir muna sjálfsagt enn þá eða hafa lesið um óþurrkasumrin 1983 og 1984. Fyrra árið var rigning, dumbungur og kuldi nánast allt sumarið. Sama var uppi á teningnum mjög víða á landinu árið eftir, nema hvað þá var um lengri tíma ágætt veður á Norður- og Austurlandi þegar líða tók á sumarið.

„Fyrr á tíð og alveg fram undir 1970 – jafnvel lengur – voru skráningar og skýrslur Veðurstofunnar um tíðarfar gjarnan skráðar út frá sjónarhóli þess hvernig heyskapur bænda hefði gengið,“ segir Einar og bætir við:

„Þessar veðurfarslýsingar fyrr á tíð haldast auðvitað í hendur við að bændur urðu að ná heyi þurru svo setja mætti í hlöður. Þegar svo til kom súgþurrkun, votheysverkun og síðar rúllubaggar var þurrkur ekki sama úrslitaatriði fyrir bændur og var. Vegna þessa meðal annars er í dag horft til annarra þátta þegar veðurspár eru gerðar eða málin greind með öðru móti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert