Nærri nítján gráða hiti: „Kærkomin blíða“

Frá Ásbyrgi í dag.
Frá Ásbyrgi í dag. Ljósmynd/Guðrún Jónsdóttir

Veður er með besta móti í Ásbyrgi í dag, en samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands náði hitinn þar 18,7 gráðum í dag. Var það um leið hæsti mældi hiti landsins á þessum ágústdegi.

„Það er blíða og hún er kærkomin eftir rokið og rigninguna sem var í gær,“ segir Guðrún Jónsdóttir, þjóðgarðsvörður í Ásbyrgi, en hún bætir við að þrátt fyrir mikinn hita sé ekki mikið um sól:

„Þetta er alveg tilvalið veður til að fara í fjallgöngu.“

Veðrið leikur hlutverk

Hún segir að straumur fólks inn á svæðið í júlí hafi verið mjög mikill. Alls komu tæplega 6.000 á tjaldsvæðið og gistinætur voru um 8.700 bara í júlí.

„Veðrið spilar alltaf inn í þessar tölur, enda elta Íslendingarnir veðrið,“ segir hún og bætir við að margir Íslendingar sæki svæðið.

Hún segir sumarið hafa verið lengi á leiðinni eftir hret í júní, en að júlí hafi í heildina litið verið ágætur:

„Þetta er búið að vera allavegana hjá okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert