Verið er að víkka leitarsvæðið á Kerlingarfjallasvæðinu vegna tveggja sem festust í helli í gærkvöldi. Leit á þeim stað sem getið var í tilkynningu þeirra týndu bar ekki árangur en hún barst í gegnum netspjall neyðarlínunnar. Margt er þó óljóst í málinu.
Þetta segir Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Landsbjargar í samtali við mbl.is.
„Það er búið að fara á þá staðsetningu sem upphafleg boðun benti til, án árangurs. Þá er bara verið að víkka leitarsvæðið og ræða við heimamenn eins og fjallkónga og fleiri, hellarannsóknarfélagið, til þess að fá upplýsingar um þá hella sem þarna eru mögulega,“ segir Jón Þór. Þá sé skyggni betra á svæðinu nú en í nótt.
Þeir hringja sjálfir og láta vita eða hvað?
„Eins og ég skil þetta þá er um netspjall að ræða við 112 og því fylgir staðsetning en ég hef eiginlega ekki greinarbetri upplýsingar um það.
[...] Þetta virðist hafa verið netspjall og mér sýnist hafa verið reynt að hafa samband við fólkið en það hafi ekki borið árangur,“ segir Jón Þór.
Um tvo einstaklinga er að ræða, tilkynnanda og einn annan, en hann kveðst ekki hafa nákvæmar upplýsingar um þjóðerni þeirra eða aldur.
Jón Þór segir allt benda til þess að um ferðamenn sé að ræða. Rætt sé nú við þá sem séu kunnugir svæðinu og reynt að kortleggja hvar hella sé að finna.
„Enn sem komið er er allt sem einhvern veginn svona fellur saman við að, já, þetta séu erlendir ferðamenn. En það er ekki mikið um hella á þessu svæði sem staðsetningin gefur til kynna að tilkynningin hafi komið frá, hversu nákvæm sú staðsetning er, það er ekki gott að segja.
Í augnablikinu er lítið annað að gera en að víkka leitarsvæðið og fara í þekkta hella og ræða við þá sem eru þarna kunnugir staðháttum um hvar hugsanlega hellir gæti leynst sem fólkið hafi þvælst inn í,“ segir Jón Þór.
Leitað sé að ummerkjum um fólk.
„Miðað við tilkynninguna erum við ekki að leita að fólki sem er sýnilegt ofanjarðar, þannig að við erum fyrst og fremst að leita eftir ummerkjum um fólk og leita að þessum helli sem það segist hafa lokast inni í. Þetta eru óvenjulegar aðstæður og að mörgu leyti erfitt,“ segir hann.
„Þetta er allt frekar óljóst og ekki úr miklu af vísbendingum að moða í augnablikinu.“
Tilkynning barst björgunarsveitum um klukkan 22.30 í gærkvöldi og hafa um 150 manns komið að aðgerðunum. Lélegt skyggni var lengi vel.