Saga misheppnaðra skólaumbóta

Umræðan um vanda íslenska skólakerfisins hefur farið hátt í kjölfar …
Umræðan um vanda íslenska skólakerfisins hefur farið hátt í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is síðustu vikur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við náum ekki að skilja hvar við erum stödd eða hvert við stefnum, ef við áttum okkur ekki á hvar við vorum stödd áður.“ 

Meyvant Þórólfsson, prófessor emeritus í námskrárfræði, námsmati og náms- og kennslufræðum við menntavísindasvið Háskóla Íslands, vitnar í þessi orð Diane Ravitch, eins merkasta sérfræðings Vesturlanda í sögu menntunar, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag,

Meyvant fjallar í greininni um menntamál hér á landi undir yfirskriftinni Hrakfarir íslenska skólakerfisins – Söguvitund, og leggur út af umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is undanfarnar vikur.

Ógöngurök í umræðunni

Hrakfarir íslensks skólakerfis eiga sér að vísu margþættar rætur og umræðan aldrei laus við ógöngurök á borð við þau sem greina mátti í tali formanns Skólastjórafélags Íslands á Sprengisandi 28. júlí síðastliðinn,“ ritar Meyvant í Morgunblaðinu í dag.

„Formaðurinn klifaði á því að við þyrftum að treysta sérfræðingum skólanna í einu og öllu; þeir væru best til þess fallnir að leggja mat á námslega stöðu og árangur nemenda. Í lok þáttar benti hann hins vegar á að illa tækist að manna skóla með menntuðu starfsfólki og það ástand færi versnandi. Með öðrum orðum: Hlutfall ófagmenntaðra starfsmanna skóla fer vaxandi á sama tíma og fella á brott ákvæði grunnskólalaga um faglegt, miðlægt eftirlit með námsárangri.“

Bætir Meyvant við að í viðtölum forstjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu og mennta- og barnamálaráðherra við Morgunblaðið hafi mátt greina ógöngurök sömu ættar.

Lítt grundað afnám námskrár og samræmdra lokaprófa

„Þjóðhagslegt gildi almennrar menntunar verður seint ofmetið. Við verðum því að gera ráð fyrir að þeim gangi gott eitt til, sem stjórna þar ferð á ólíkum tímum, jafnt pólitískum ráðherrum sem og öllum þeim sérfræðingum og öðru skólafólki sem kemur við sögu.“

Prófessorinn er ómyrkur í máli og segir ekki fram hjá því litið að íslensk skólasaga síðastliðin hundrað ár sé að nokkru marki saga misheppnaðra skólaumbóta.

„Má þar nefna „sögukennsluskammdegið“ og nýskólastefnu Skólarannsóknadeildar á áttunda áratug síðustu aldar, lítt grundað afnám Aðalnámskrár 1999 og í kjölfarið afnám samræmdra lokaprófa 2008 að ógleymdri gildistöku Aðalnámskrár eftirhrunsáranna 2011/2013,“ segir hann.

Þokukennd hæfniviðmið

„Sú námskrá er enn í gildi, ótrúlegt en satt, með sín þokukenndu hæfniviðmið og dulin skilaboð um að skólarnir verði vettvangur til að hvítþvo samfélagið af hugmyndafræði nýfrjálshyggju. Sagan geymir fjölmörg fleiri dæmi um slík gönuhlaup við stjórn menntamála.“

Hann rifjar upp þá gullnu reglnu að mistökin séu til að læra af þeim. 

„En þegar nýtt pólitískt afl tekur við stjórn menntamála er eins og slík tækifæri séu slegin úr höndum okkar; ný forysta kappkostar að slá sér pólitískar keilur og virðist forðast að læra af sögunni.“

Tækifæri til að reisa sér minnisvarða

Bendir Meyvant á að við ráðuneyti menntamála hafi aldrei starfað „fagráðherra“ með sérfræðiþekkingu á skóla- eða uppeldismálum eða sögu menntamála, heldur pólitíkusar sem sumir hverjir hafi „þefað uppi samfélagsleg eða skólapólitísk úrlausnarefni með hjálp misviturra sérfræðinga í leit að tilefni til breytinga og þar með tækifærum til að reisa sér minnisvarða“.

„Ef til vill sterkt til orða tekið, en þannig blasir myndin við undirrituðum sem hefur starfað í íslensku menntakerfi í hálfa öld.“

Grein Meyvants í heild sinni má lesa í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert