Sakar ráðherra um uppgjöf

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að gefast upp við að afla mikilvægra upplýsinga sem samræmd próf veita er skólastarfi alls ekki til framdráttar.

Þetta er meðal þess sem segir í umsögn Kristínar Jónsdóttur, kennslukonu og dósents við menntavísindasvið Háskóla Íslands, við áform mennta- og barnamálaráðherra í samráðsgátt um breytingu á lögum um grunnskóla sem felur m.a. í sér afnám samræmdu könnunarprófanna. 

Prófin voru síðast lögð fyrir árið 2021. Framkvæmdin misfórst þá og hefur fyrirlagningu þeirra verið frestað síðan.

Nýtt námsmat komi ekki í stað prófanna

Kristín segir í umsögninni það vera rétt að prófin og framkvæmd þeirra hafi sætt gagnrýni, eins og fram kemur í samráðsgáttinni. Að hennar mati er þó ekki þörf á að leggja þau niður heldur telur hún efni til að þróa prófin áfram og sjá til þess að framkvæmd þeirra gangi snurðulaust fyrir sig.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, áður Menntamálastofnun, þróar nú nýtt námsmat, matsferil, sem koma á í stað samræmdu könnunarprófanna. Stofnunin stefnir á að ljúka við lestrar- og stærðfræðimælitæki námsmatsins á næstu þremur árum.

Kristín segir mikilvægt að stofnunin fái fjármagn og mannafla til að ljúka við gerð námsmatsins sem fyrst enda muni kennarar og skólar geta notað nýja námsmatið á marga vegu. 

„Matstæki Matsferils munu þó ekki geta komið í stað samræmdra prófa,“ ítrekar hún þó.

Samræmd könnunarpróf voru lögð fyrir síðast árið 2021 en framkvæmdin …
Samræmd könnunarpróf voru lögð fyrir síðast árið 2021 en framkvæmdin misfórst. mbl.is/Hari

Verði lögð fyrir þrisvar

Kristín leggur til að samræmd könnunarpróf verði lögð fyrir þrisvar á grunnskólagöngu nemenda, við lok 3., 6. og 9. bekkjar, í stærðfræði, ensku og íslensku. 

„Samræmd próf í ákveðnum greinum rýra ekki vægi annarra námsgreina, enda ekki hægt að prófa samræmt alla þá hæfniþætti sem Aðalnámskrá kveður á um,“ segir í umsögninni.

„Við sem samfélag þurfum yfirsýn. Grunnskólakerfið á að virka vel fyrir öll börn, óháð því hvar á landinu þau búa eða í hvaða skóla þau ganga. Gögn sem fást með samræmdum prófum veita innsýn í hversu vel skólakerfið okkar virkar á landsvísu og hvernig ýmsir þættir þróast milli ára.“

Foreldrar hafa gagn af samræmdum prófum

Hún segir foreldra oft og tíðum velta því fyrir sér hvernig börn þeirra standa sig í námi í samanburði við jafnaldra.

„Einkunnir úr samræmdum prófum geta svarað þessu, um þá námsþætti sem prófað er úr til dæmis í íslensku, stærðfræði og ensku, en ekki aðra. Nánari greining á niðurstöðum getur líka sýnt í hverju framfarir hafi verið mestar, til dæmis í íslensku milli 3. og 6. bekkjar, eða hvað þarf einkum að styðja við,“ skrifar Kristín.

„Þannig hafa foreldrar gagn af að fá þær upplýsingar sem samræmd próf veita. Þeir geta stutt börnin sín betur í samvinnu við kennara, en líka gert kröfur til sveitarfélaga og yfirvalda menntamála um meiri metnað í skólamálum ef ástæða er til.“

Samræmdu prófin nauðsynleg

Kristín segir samræmdu könnunarprófin nauðsynleg til að hægt sé að fylgjast með námsstöðu grunnskólabarna og rannsaka hvernig hún breytist og þróast, til að mynda milli ára eða landshluta.

„Safn niðurstaðna úr mælingum sem margir standa fyrir, á mismunandi tímum, með ýmsum matstækjum, nýtist ekki á sama hátt.

Það ætti að vera okkar metnaðarmál að þróa vönduð, samræmd próf samhliða því sem Matsferill verður fullbúinn. Því þarf áfram að fjalla um samræmd próf í grunnskólalögum.“

Meiri gagnrýni frá menntavísindasviði

Tveir prófessorar og dós­ent við menntavís­inda­svið háskólans hafa áður stigið fram og gagnrýnt áform ráðuneytisins, eins og Morgunblaðið og mbl.is greindu frá í júlí.

Telja þeir af­nám sam­ræmds náms­mats leiða til lak­ari ár­ang­urs nem­enda og til auk­ins mis­rétt­is í mennta­kerf­inu. Óráðlegt sé að leggja af sam­ræmd könn­un­ar­próf án þess að nýtt kerfi sé til­búið til notk­un­ar sem get­i leyst þau af hólmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert