Skjálftum fjölgar: Tvær sviðsmyndir líklegastar

Um sextíu skjálftar mældust á svæðinu síðasta sólarhring.
Um sextíu skjálftar mældust á svæðinu síðasta sólarhring. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Daglegum skjálftum við Sundhnúkagígaröðina fjölgar enn. Samkvæmt líkanreikningum Veðurstofu hefur nægur þrýstingur myndast í eldstöðvakerfinu til að koma af stað kvikuhlaupi eða eldgosi á næstu dögum.

Um sextíu skjálftar mældust á svæðinu síðasta sólarhring, en til samanburðar urðu um þrjátíu skjálftar að meðaltali á dag fyrir rúmri viku.

Frá þessu greinir Veðurstofan í tilkynningu og tekur fram að áfram hægi örlítið á landrisinu. Sú þróun samfara aukinni jarðskjálftavirkni gefi vísbendingar um aukinn þrýsting í kerfinu.

„Nú er í raun spurning um hversu mikinn þrýsting jarðskorpan þolir áður en hún gefur undan og nýtt kvikuhlaup fer af stað,“ segir í tilkynningunni.

Hættumat stofnunarinnar helst óbreytt frá því sem var, eins og sjá má á meðfylgjandi korti.

Hættumat Veðurstofu 6.-13. ágúst að óbreyttu.
Hættumat Veðurstofu 6.-13. ágúst að óbreyttu. Kort/Veðurstofa Íslands

Fyrirvari gæti orðið stuttur

Eftirfarandi tvær sviðsmyndir eru taldar líklegastar:

Sviðsmynd 1:

  • Eldgos með upptök milli Stóra-Skógfells og Sundhnúks (miðhluti svæðis 3 á hættumatskorti). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófust 18. desember 2023, 8. febrúar, 16. mars og 29. maí 2024.
  • Líklegur aðdragandi er staðbundin smáskjálftahrina milli Stóra-Skógfells og Sýlingarfells, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Mjög stuttur fyrirvari (innan við 30 mínútur).
  • Hraun gæti náð að Grindavíkurvegi við Þorbjörn á innan við 1,5 klukkustundum og á innan við 3 klukkustundum að Grindavíkurvegi við Svartsengi utan varnargarða.

Sviðsmynd 2: 

  • Eldgos með upptök sunnan við Sundhnúk, við Hagafell eða suður af Hagafelli (syðsti hluti svæðis 3 á hættumatskorti og efsti hluti svæðis 4). Svipuð staðsetning og eldgos sem hófst 14. janúar 2024.
  • Líklegur aðdragandi er smáskjálftahrina sem byrjar nærri Stóra-Skógfelli eða Sýlingarfelli og færist suður, hröðun í aflögun og þrýstingsbreytingar í borholum á svæðinu.
  • Líklega yrði fyrirvari eldgoss á þessu svæði lengri en í sviðsmynd 1, en óvíst hversu mikið. Lengri fyrirvari ræðst af því hversu langt til suðurs kvikan brýtur sér leið áður en hún leitar upp á yfirborðið.
  • Hraun gæti náð að Nesvegi og Suðurstrandavegi á innan við 1,5 klukkustund. Hraunflæði gæti mögulega lokað flóttaleiðum á landi út úr Grindavík á um 6 klukkustundum.
  • Í þessari sviðsmynd gæti hraun náð til sjávar austan Grindavíkur á 1,5 til 3 klukkustundum. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna snöggrar kælingar á hrauni. Í fyrstu væri hætta vegna gjósku og gasmyndunar, fyrst og fremst saltsýru (HCI). Í um 500 m radíus frá þeim stað þar sem hraun kæmist í snertingu við sjó, væru aðstæður lífshættulegar.
  • Kvikugangur sem nær suður fyrir Hagafell mun líklega valda verulegum sprunguhreyfingum í Grindavík.
  • Í þessari sviðsmynd þarf að gera ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan Grindavíkur. Einn möguleikinn er sá að hraun sem kemur upp úr gosopi norðan varnargarða við Grindavík geti flætt ofan sprungur og komið svo aftur upp um opnar sprungur innan bæjarmarkanna.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert