Íslendingar geta búist við því í mánuðinum að vera ljósmyndaðir af Look Around-bílum tæknirisans Apple, sem eru nú á leið til landsins.
Look Around-þjónusta Apple Maps er sambærileg Street View-þjónustu Google Maps, sem leyfir notendum að sjá 360 gráða myndir úr jarðhæð á völdum stað á korti.
Bílarnir eru á leið til landsins með ferjunni Norrænu sem siglir frá Hirtshals í Danmörku en færeyski miðillinn Portal greindi frá því í gærmorgun þegar að minnsta kosti sex Apple-bílar með myndavél á þakinu sáust aka um borð í ferjuna.
Óvíst er hvort einhverjir þeirra stoppi við í Færeyjum en líklega eru sumir þeirra á leið til Íslands þar sem Apple segist á vef sínum ætla að kortleggja Ísland á milli 2. ágúst og 7. september.
Ekið verður um alla landshluta en starfsmaður Apple mun einnig kortleggja hluta af miðbæ Reykjavíkur fótgangandi. Apple segist einnig nota gögnin sem það safnar í ferðum sínum um heiminn til að bæta kortaþjónustu sína.