Bera fyrir sig breytingar og nýja stofnun

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefur trassað að skila …
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra hefur trassað að skila skýrslunni undanfarin ár. mbl.is/Samsett mynd

Skýrsla sem mennta- og barnamálaráðherra lofaði að skila fyrir árslok 2022 er sögð hafa tafist vegna breytinga innan Stjórnarráðsins og ráðuneytisins, sem og breytinga á framkvæmd verkefna vegna tilkomu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.

Þetta kemur fram í svari menntamálaráðherra til Morgunblaðsins, en skýrslan lýtur að framkvæmd skólastarfs í grunnskólum árin 2017 til 2021.

Ásmundur Einar Daðason ráðherra lofaði umboðsmanni barna fyrir rúmum tveimur árum að leggja fram skýrsluna fyrir lok árs 2022. Hann hefur þó enn ekki skilað skýrslunni.

Í svari ráðuneytisins til Morgunblaðsins og mbl.is segir að drög að skýrslunni liggi fyrir í ráðuneytinu og að hún sé á þingmálaskrá til fyrirlagningar á haustþingi.

Engin skýrsla í rúm fimm ár

Mennta- og barnamálaráðherra hefur ekki lagt fram skýrslu um framkvæmd skólahalds í grunnskólum síðan í janúar árið 2019. Tók sú skýrsla til skólaáranna 2010 til 2016.

Samkvæmt lögum um grunnskóla ber ráðherra á þriggja ára fresti að leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins sem byggist m.a. á skýrslum sveitarfélaga um skólahald.

Umboðsmaður barna sendi ráðherra bréf í apríl 2022 þar sem hann lagði áherslu á að brýnt væri að ný skýrsla yrði sem fyrst lögð fram. Ráðuneytið svaraði í byrjun maí sama ár þar sem fullyrt var að ráðherra myndi leggja fram skýrsluna fyrir lok ársins.

Sú skýrsla hefur ekki enn verið lögð fyrir Alþingi og ítrekaði því umboðsmaður erindi sitt með bréfi til ráðherra í síðasta mánuði.

Drög sögð liggja fyrir

Í fyrirspurn Morgunblaðsins til ráðherra var óskað eftir svörum við því hvers vegna útgáfa skýrslunnar hefði dregist svo á langinn og hvenær mætti gera ráð fyrir því að hún yrði lögð fram fullgerð.

„Drög að skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum fyrir árin 2017-2021 liggja fyrir í ráðuneytinu. Skýrslan er á þingmálaskrá til fyrirlagningar á haustþingi 2024. Tafir urðu á útgáfu hennar m.a. vegna breytinga, innan Stjórnarráðsins og ráðuneytisins, sem og á framkvæmd verkefna með tilkomu nýrrar stofnunar,“ segir m.a. í svarinu.

„Ráðuneytið hefur lagt mikinn metnað í menntastefnu til ársins 2030 og aðgerðaáætlun hennar, sem hefur það að markmiði að á Íslandi verði menntakerfið framúrskarandi þegar hrint hefur verið í framkvæmd öllum þeim menntaumbótum sem þurfa þykir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert