Búast við gosi á hverri stundu

Hægst hef­ur ör­lítið á landrisi við Sund­hnúkagígaröðina og dag­leg­um skjálft­um …
Hægst hef­ur ör­lítið á landrisi við Sund­hnúkagígaröðina og dag­leg­um skjálft­um fjölg­ar enn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Veðurstofan metur að um 16 til 18 milljónir rúmmetra af kviku hafi nú safnast undir Svartsengi og bíði eftir að brjóta sér leið á yfirborð.

Jarðvísindamenn búast við gosi á hverri stundu á Reykjanesskaga en aðdragandinn gæti verið styttri en hálftími og forboðar gossins yrðu aukin skjálftavirkni og stökk í gosóróa á svæðinu. 

Hægst hef­ur ör­lítið á landrisi við Sund­hnúkagígaröðina og dag­leg­um skjálft­um þar fjölg­ar enn.

„Þetta eru svona á milli sextán og átján milljón rúmmetrar [af kviku],“ segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is, spurð út í áætlað kvikumagn undir Svartsengi.

Um 60 skjálftar hafa mælst í kvikuganginum síðasta sólarhring, svipað og um sólarhringinn þar á undan. Enginn áberandi gosórói mælist á svæðinu.

Forboðarnir af ýmsum stærðum

„Að öllum líkindum, ef þetta gerist eins og í síðustu gosum, þá ættum við að sjá snarpa hviðu áður en allt fer af stað,“ segir Lovísa.

Þessir fyrirboðaskjálftar geti verið af öllum stærðum og gerðum; allt að 3 að stærð, eins og fyrir síðasta gos, eða smærri eins og í gosinu þar á undan.

„Það fer í rauninni eftir því hvar [kvikan] brýtur sig upp. Ef þetta er að koma á svipuðum slóðum eru þetta ekki kannski ekki jafn stórir skjálftar því hún er búin að brjóta sér leið þar upp áður.“

Tvær sviðsmyndir eru líklegastar ef gos hefst. Annars vegar gætu upp­tökin verið milli Stóra-Skóg­fells og Sund­hnúks, þar sem aðdragandinn yrði smáskjálftahrina á því svæði.

Hins vegar gæti gosið við Sund­hnúk, við Haga­fell eða suður af Haga­felli en þar myndi aðdragandinn vera smá­skjálfta­hrina nærri Stóra-Skóg­felli eða Sýl­ing­ar­felli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert