Byggja á því að byrjunarfasi gossins verði stærri

Dregið gæti til tíðinda hvað úr hverju.
Dregið gæti til tíðinda hvað úr hverju. mbl.is/Eyþór

Hægst hefur örlítið á landrisi við Sundhnúkagígaröðina og var nóttin fremur tíðindalítil er varðar skjálfta. Dregið getur þó til tíðinda og gos hafist með mjög skömmum fyrirvara. Allar viðbragðsáætlanir Veðurstofunnar vinna út frá því að byrjunarfasi næsta goss verði stærri en sá síðasti.

„Það var tíðindalítil nótt þegar kemur að jarðskjálftum allavegana, fremur róleg. En staðan er í sjálfu sér óbreytt, það er áfram landris og það er búist við því að það fari eitthvað að gerast hvað úr hverju og það getur gerst með skömmum fyrirvara,“ segir Ingibjörg Andrea Bergþórsdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Verði með svipuðum hætti og áður

Hvernig lítur þetta út miðað við fyrri aðdraganda?

„Eins og staðan er núna þá hefur þetta hegðað sér þokkalega svipað. Það er landris og byggist upp meiri og meiri spenna og skjálftar og svo gerist eitthvað, annaðhvort kvikuhlaup eða kvikuhlaup, sem að endar með eldgosi.

Það er í rauninni ekkert sem við höfum hérna og sjáum sem bendir til þess að eitthvað annað eða öðruvísi gerist. En auðvitað getur í rauninni allt skeð en við búumst við að þetta verði með mjög svipuðum hætti og síðasta gos. Komi upp þá á svipuðum stað eða slóðum,“ segir Ingibjörg. 

Líklegt sé að gossprunga opnist fyrst norðaustan við Hagafell, við Sundhnúk. 

„Það er þá í rauninni þarna rétt norðaustan við Hagafell, við Sundhnúk, gamla gíginn. Þar hafa þessar gossprungur öllu jöfnu opnast fyrst og svo teygja þær sig til norðurs og suðurs, mislangt eftir skiptum. Það er þarna á milli Hagafells og Sýlingarfells sem er staðurinn.“

„Vinnum hér allavegana eins og að þetta geti gerst hvað úr hverju“

Eru einhver teikn á lofti varðandi stærð?

„Það er erfitt að segja til um svoleiðis fyrir fram en síðustu gos hafa verið alltaf ögn stærri en þau fyrri, sem sagt upphafsfasinn. Þannig að þau virðast verða aðeins kröftugri í upphafi heldur en gos þar á undan. Við gerum ráð fyrir og erum undirbúin fyrir slíkt. Allar viðbragðsáætlanir og allt viðbragð hérna hjá okkur byggir á því að það geti orðið stærra gos í byrjunarfasa heldur en síðast. En svo getur alltaf orðið kvikuhlaup en ekki gos eins og hefur skeð líka,“ segir Ingibjörg. 

Hvað varðar tímalínu geti dregið til tíðinda hvað úr hverju. 

„Við vinnum hér allavegana eins og að þetta geti gerst hvað úr hverju. Það að það sé allt búið að vera rólegt í nótt þarf ekkert að segja til um hvernig dagurinn þróast. Það getur bara allt í einu allt farið af stað.“

Áfram sé talað um 2 til 3 vikur og hættumat sé óbreytt. 

„Við erum farin að nálgast efri mörkin á því en svo hefur hægst aðeins á landrisi þannig það getur lengst aðeins í annan endann á þessu tímabili,“ segir Ingibjörg að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert