Falsboð yrði rannsakað sem sakamál

Umfangsmikil leit var sett í gang vegna neyðarboðanna.
Umfangsmikil leit var sett í gang vegna neyðarboðanna. Ljósmynd/Landsbjörg

Grunur leikur á að falsboð hafi hrundið af stað umfangsmikilli leit við Kerlingarfjöll á mánudag og í gær.

Yfirlögregluþjónn segir það brot á hegningarlögum að gabba neyðarlið og björgunarsveitir. Unnið sé að því að afla upplýsinga um staðsetningu skilaboðanna. Rannsókn á neyðarboðinu stendur yfir.

Tæplega 200 manns unnu við leit við Kerlingarfjöll sem stóð frá mánudagskvöldi fram á þriðjudag vegna neyðarboða sem bárust í gegnum netspjall neyðarlínunnar. Neyðarboðin voru þess efnis að tveir væru fastir í helli á svæði nærri Kerlingarfjöllum. Eftir því sem leið á leitina fóru að renna tvær grímur á björgunarsveitafólk og lögreglu og er nú talið að um falsboð hafi verið að ræða.

mbl.is ræddi við Svein Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjón á Suðurlandi vegna málsins. 

Brot á hegningarlögum

Hvernig er málum háttað í svona tilfellum?

„Gabb er náttúrulega bara brot á hegningarlögum. Ef þú gabbar neyðarlið, lögreglu eða björgunarsveitir eða slíkt þá ertu að brjóta hegningarlög, 120. grein hegningarlaga. Þar liggja við sektir eða fangelsisrefsing allt að þremur mánuðum, þannig þetta er alvarlegt mál.

Hver sú sem refsingin er þá er þetta mjög alvarlegt, ef rétt reynist, að gabba björgunarlið í svona miklar aðgerðir, segir Sveinn.

Eitt mál fyrir tuttugu árum 

Er þetta eitthvað sem þú manst eftir að hafi gerst áður?

„Ég man eftir einu tilviki fyrir rúmum tuttugu árum síðan þar sem var farið í leit að fólki á hálendinu. Það reyndist ekki eiga við rök að styðjast,“ segir Sveinn. Tilfelli þar sem um falsboðun er að ræða komi ekki oft fyrir og séu mjög sjaldgæf. 

Þegar hann er spurður út í fjármagnshlið leitar, sé um falsboð að ræða, segir hann mikilvægt að fólk leiti aðstoðar þegar það þurfi á henni að halda. Aðgerðir af þessari stærðargráðu séu þó vissulega kostnaðarsamar. 

„Það er hlutur sem við náttúrulega horfum helst ekki á og viljum ekki fara í því viljum að fólk leiti aðstoðar ef það er í neyð. Viljum alls ekki fæla fólk frá því að kalla eftir aðstoð og fari ekki að hugsa út í kostnað ef það er í neyð. Við reynum að fara ekki út í þá umræðu á sama tíma. En vissulega er þetta gríðarlega kostnaðarsamt. Við erum með hátt í 200 manns í tæpan sólarhring að leita, fólk að fara úr vinnu og það er með tól og tæki þannig þetta er gríðarlegur kostnaður,“ segir Sveinn. 

Allar vísbendingar hafa verið eltar og afgreiddar

Nú hugsar maður, hvað ef þetta er ekki falsboð? Er það alveg óyggjandi að um eitthvað skrítið sé að ræða?

„Já, við í rauninni lítum þannig á það að við erum búin að elta alla þá þræði sem við mögulega getum elt, og loka öllum þeim götum sem að við getum og höfum ekki út frá neinu frekar að byggja til að halda áfram leit, og frestum henni þar af leiðandi. Einbeitum okkur að þessari aðstoðarbeiðni. Það er margt sem liggur að baki þessari ákvörðun, þetta er ekki bara ákvörðun: „Já, nú erum við hætt og getum ekki meir“ heldur erum við búin að gera ýmsa hluti áður en við tökum þessa ákvörðun,“ segir Sveinn. 

Allt skilur eftir sig slóð

Hversu auðvelt eða erfitt er að rekja svona skilaboð?

„Það er eitthvað sem við erum búin að vera að vinna að, bæði í gær og svo frá því að leitin hófst þá erum við búin að vera að rekja slóðina. Öll umferð á netinu skilur eftir sig slóðir þannig að við erum að leita eftir þeim þráðum núna og erum að vinna úr þeim þráðum sem við höfum.“

Sveinn segir fólk senda réttar upplýsingar í 99% tilfella, þó komi það fyrir að rýrar upplýsingar fáist sem gefi samt af sér vísbendingar. 

„En í þessu tilfelli þá erum við komin svolítið á vegginn með það að við erum ekki með fleiri vísbendingar sem við getum unnið eftir í leitinni sjálfri þannig við ætlum að einbeita okkur að þessum hluta og sjá hvert það leiðir okkur. Við svo sem hættum ekki leit heldur frestuðum við leitinni þar til að við höfum eitthvað meira í höndunum.

Ef það reynist sem svo að þetta sé ekki falsboð, það sé eitthvað meira á bak við, þá mun það væntanlega koma í ljós mjög fljótlega og við höldum leitinni áfram. Eins og staðan er núna þá er ekkert sem við höfum í höndum sem að réttlætir það að halda einhverri leit á fjöllum áfram.“

Gabb yrði að sakamáli

Bendir allt til þess að þetta sé falsboð?

„Já, það er okkar mat að það sé svona frekar það sem sé í gangi heldur en eitthvað annað. Miðað við það að það var leitað þarna í tæpan sólarhring og búið að loka öllum þeim þráðum sem við höfðum í höndum og búið að vinna úr.“

Spurður hvað taki við, sé um falsboð að ræða, segir Sveinn að þá yrði tilfellið rannsakað sem sakamál.

„Þá er þetta orðin rannsókn á broti og við erum með rannsókn í gangi. Þetta er bara svo sem rannsakað eins og annað sakamál, því þá er þetta orðið sakamál ef þarna er gabb í gangi. Við rannsökum bara eftir því í samræmi við það og vinnum það eins og önnur sakamál,“ segir Sveinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert