Fóru í fýluferð á nýja tónleikagerð

Til stóð að halda tónleikana á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu.
Til stóð að halda tónleikana á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nokkrir spenntir tónleikgestir gripu í tómt þegar þeir mættu fyrir utan Borgarleikhúsið í kvöld að sjá fyrsta kvöldið af nýrri tónleikagerð sem nefnist Sömmer. 

Ein þeirra var Ragna Kristmundsdóttir og maðurinn hennar. Þau höfðu keypt miða á tónleikana fyrir rúmlega tveim vikum og biðu spennt eftir að sjá tónlistarflytjendur kvöldsins en það áttu að vera þau Bríet og Birnir, Vök og Countless Malaise. 

Þegar þau mættu fyrir utan Borgarleikhúsið var hurðin læst og slökkt inn í byggingunni. Ragna segir í samtali við mbl.is að hópur fólks hafi verið kominn fyrir utan leikhúsið og að enginn hafi verið látinn vita afhverju það yrðu engir tónleikar. 

Til stóð að halda tónleika sex kvöld í ágúst og átti það fyrsta að vera í kvöld. Tónleikarnir áttu að fara fram á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu.

Ragna segir að hún hafi keypt miða á tónleikana fyrir rúmum hálfum mánuði á Tix.is og hafi miðinn kostað 9.900 krónur. Hún segist ekki hafa fengið neinn tölvupóst um að búið væri að hætta við tónleikana. 

Hætti við vegna dræmrar miðasölu

Kári Gíslason, skipulagsstjóri Borgarleikhússins, segir í samtali við mbl.is að Borgarleikhúsið beri ekki ábyrgð á viðburðinum heldur tónleikahaldarinn, sem leigir út sal leikhússins. 

Tónleikahaldari Sömmer er Þorsteinn Stephensen.  

Kári segir að ekki hafi orðið af tónleikunum vegna þess að tónleikahaldarinn hafi hætt við þá fyrir tveim vikum vegna dræmrar miðasölu.

Spurður afhverju tónleikagestir hafi ekki verið látnir vita að ekki yrði af tónleikunum segir hann: „Miðasalan var hjá Tix.is [...] og átti Tix að sjá um það, eins og ég best veit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert