Gætu haft hótelið opið allt árið með betri þjónustu

Skriður féllu á Strandaveg á föstudag.
Skriður féllu á Strandaveg á föstudag. Ljósmynd/Davíð Már Bjarnason

„Maður hefur fundið það í sumar að það hefur verið alveg agalega léleg þjónusta á veginum,“ segir Magnús Karl Pétursson, hótelstjóri á Hótel Djúpavík, í samtali við mbl.is.

Skriður féllu á Strandaveg á föstudag og var veginum lokað sitt hvorum megin við Djúpavík. Urðu yfir 50 manns innlyksa í kjölfarið.

Magnúsi finnst allt of mikið hafa verið gert úr atvikinu þar sem búið var að opna veginn um klukkan tvö samdægurs.

Svona lagað geti komið fyrir þegar geri mikið vatnsveður en að þó hafi ekki þurft að loka veginum þegar rigndi enn meira í fyrradag.

Loka fyrir almennar bókanir á veturna

Hótelið lokar fyrir almennar bókanir á veturna og að sögn Magnúsar er það vegna þess að ekki sé hægt að treysta á veginn.

Hann segir einnig að hótelið gæti verið opið allt árið um kring ef þau sem reka hótelið gætu treyst á þjónustu frá Vegagerðinni.

Hótelstjórinn segir þau þó kunna að meta starfsfólk Vegagerðarinnar á svæðinu og Gunnar Núma, yfirverkstjóra Vegagerðarinnar á Hólmavík, sem „vill allt fyrir okkur gera“.

Magnús segir Vegagerðina hafa verið með svokallaðan „tilraunamokstur“ á Djúpavík síðustu þrjá vetur þar sem hún hafi rutt einu sinni til tvisvar í viku. Moksturinn hafi breytt öllu rekstrarumhverfinu.

„Við sleppum því ekki, þeirri þjónustu, nema með einhverjum látum.“

Fara á sleðum á milli staða

Á veturna þarf fólkið á Djúpavík oft að notfæra sér sleða til þess að koma sér á milli staða en fyrir níu árum síðan fengu þau hugmynd um að gera rekstur úr ófærðinni.

„Af hverju ekki hér, fyrir þetta íslenska sleðafólk sem er að leika sér allar helgar hvort sem er,“ segir Magnús en frá febrúar og fram í apríl bjóða þau fólki upp á gistingu, mat og leiðbeinendur fyrir sleðaferðir.

Það að koma birgðum áleiðis í ófærðinni getur reynst vandasamt en Magnús segir að það geta orðið þriggja tíma vinna að koma bjór áleiðis til viðskiptavina á snjósleða. Auðvitað sé þó ekki hægt að leggja himinháa þjónustugjaldið ofan á verðið.

„Ég get haldið mér á heilsárslaunum, bara svona lágmarkslaunum, og þó varla það,“ segir Magnús spurður hvernig hægt sé að halda sér á floti fyrst þau loka fyrir almennar bókanir á veturna.

Magnús segir sleðareksturinn vera þeirra leið til þess að fá tekjur á veturna en að hann og mágur hans séu á heilsárstekjum hjá hótelinu. Þó fái þeir fleira starfsfólk yfir sumrin þegar þau eru átta eða níu talsins að vinna á hótelinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert