Héldu hvalnum rökum með blautum klæðum

Elliði kveðst skilja það að fólki þyki dýrið áhugavert en …
Elliði kveðst skilja það að fólki þyki dýrið áhugavert en að varar fólki frá því að mæta á svæðið og ganga of nærri dýrinu. Ljósmynd/Jón Halldór

Skíðishval sem rak í land í Þorlákshöfn í dag var haldið rökum með blautum klæðum. Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir sveitarfélagið hafa notið góðs af sérfræðiþekkingu Matvælastofnunar og Hafrannsóknarstofnunnar. 

Enn hefur ekki fengið staðfest hvers konar hval um ræðir, en Elliði segir sjómenn á svæðinu sem hafa séð til dýrsins og þekkja til hvala telja að um steypireiðarkálf sé að ræða.

Það stemmir við ályktun Hafrannsóknarstofnunar sem Þóra Jónasdóttir hjá Matvælastofnun greindi frá fyrr í dag.

„Þeir eru nokkuð fullvissir um að þetta sé steypireiðarkálfur.“

Björgunarsveitarmenn reyna að halda hvalnum rökum.
Björgunarsveitarmenn reyna að halda hvalnum rökum. mbl.is/Jón H. Sigurmundsson

Njóta góðs af sérfræðiþekkingu Mast og Hafró

Elliði segir að beðið hafi verið átektar í upphafi, enda hvalurinn ekki á þurru landi:

„Síðan fjarað frá og þá voru breidd yfir hann klæði til þess að halda honum rökum.“

Elliði kveðst skilja það að fólki þyki dýrið áhugavert en að varar fólki frá því að mæta á svæðið og ganga of nærri dýrinu:

„Þetta er ungt dýr sem getur auðveldlega fælst og orðið fyrir miklum óþægindum ef fólk er of nærri því.“

Hann segir að reynt verði að koma dýrinu á flot ef aðstæður leyfa:

„Okkar helsta hlutverk í dag er að hafa dráttarbátinn reiðubúinn ef á það verður látið reyna að draga hann á flot.“

Hann segir sveitarfélagið hafa notið góðs af sérfræðiþekkingu Matvælastofnunar og Hafrannsóknarstofnunnar og sé sérfræðingunum til taks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert