Hlýnar um leið og þokan hverfur

Þokan sést enn vel á Mosfellsheiði.
Þokan sést enn vel á Mosfellsheiði. Ljósmynd/Aðsend

Þoku hefur lagt yfir höfuðborgarsvæðið og Suðurnesin í morgun en hún hverfur sennilega á braut þar sem hlýna á í veðri á suðvesturhorninu seinna í dag.

„Hún [þokan] kom í nótt og er búin að vera viðvarandi í morgunsárið,“ segir Katrín Agla Tómasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Þetta myndast í rauninni þegar það er raki í loftinu og hægur vindur. Þá eru góðar aðstæður fyrir þoku til að myndast yfir höfuðborgarsvæðinu, kemur hérna kalt loft af hafi inn á landið,“ útskýrir sérfræðingurinn. 

Þokan sé nú að mestu á höfuðborgarsvæðinu en gerði einnig vart við sig á Suðurnesjum, t.a.m. í Grindavík.

Milt veður næstu daga

Hún er þó að því er virðist á hverfandi hveli þar sem hlýna fer í veðri í dag og búist er við hlýju veðri. 

„Ef þessi þoka fer ætti hitastig að geta náð upp í sextán [eða] sautján gráður og verður svona fremur hægur vindur eða hafgola.“

Þá eigi einnig að vera ágætisveður næstu daga, fremur hægur vindur en þó tiltölulega skýjað á morgun.

„Um helgina er þetta svipað: skýjað með köflum, einhver væta hér og þar en yfirleitt bara milt veður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert