Hvellsauð í gufuhvernum

Allt bendir til þess að skriðan hafi ekki farið hratt …
Allt bendir til þess að skriðan hafi ekki farið hratt yfir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aurskriða sem tók úr hlíðinni suðaustan við Skíðaskálann í Hveradölum um miðjan júlí hefur líklega rofið efsta jarðvegslagið ofan af gufuhver. Þráinn Friðriksson, jarðfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur, hefur skoðað verksummerki við skriðuna í félagi við sérfræðinga frá ÍSOR, Veðurstofu Íslands og Eflu.

Segir hann allt benda til að fyrst hafi farið af stað moldarrík jarðvegsskriða og bendir á að skriðan sé moldarkennd að neðan. Megnið af skriðunni sé þá þakið hveraleir sem bendi til að þessi suðan hafi átt sér stað á meðan skriðan var að renna fram. Þannig hafi skriðan komið af stað hvellsuðu fremur en að orðið hafi fyrirvaralaus gufusprenging í hvernum sem aftur hafi sett skriðuna af stað.

Ekkert bendir til þess að virknin sé meiri en áður 

Leiðin sem skriðan fór, um 90 metra suðvestur undan frekar litlum halla að skurði samsíða malarvegi og síðan í 90 gráðu beygju ofan í skurðinn og eftir honum til vesturs, bendi til að skriðan hafi ekki farið mjög hratt yfir, líklega á nokkrum mínútum, því annars hefði hún líkast til ekki stöðvast við malarveginn og breytt þar um stefnu.

Þá segir hann gufusprengingu eiga sér stað á nokkrum sekúndum en aurskriðu, sem kemur af stað hvellsuðu, á nokkrum mínútum. Fyrirvaralaus gufusprenging sé þannig talsvert hættumeiri.

Ekkert bendir til að virkni leirhversins í skriðusárinu sé meiri nú en áður að mati Þráins en allrar athygli vert sé þó að formið á sárinu sé mjög áþekkt skálarlaga leirflagi ofan við gufuhverinn vestan við það. Þannig sé auðvelt að ímynda sér að það landform hafi á sínum tíma myndast með sama hætti.

Meira um málið má sjá í Morgunblaði dagsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert