Óvissa undir Ásmundi: „Sorglegt og alvarlegt“

Björn Bjarnason segir mikla óvissu ríkja í málaflokknum undir stjórn …
Björn Bjarnason segir mikla óvissu ríkja í málaflokknum undir stjórn Ásmundar Einars Daðasonar ráðherra. mbl.is/Samsett mynd

Fyrrverandi menntamálaráðherra segir það sorglegt og alvarlegt, hvernig komið sé fyrir íslensku grunnskólastarfi. Segir hann mikla óvissu ríkja í málaflokknum undir stjórn ráðherrans Ásmundar Einars Daðasonar.

Björn Bjarnason, sem gegndi embætti menntamálaráðherra á árunum 1995 til 2002, skrifar á vef sinn í dag um þau áform skólayfirvalda sem Morgunblaðið og mbl.is hafa fjallað ítarlega um á undanförnum vikum.

„Nú er lokið umsagnarferli um áform mennta- og barnamálaráðherra um frumvarp til breytinga á grunnskólalögum sem festir í sessi hugmyndir um að svonefndur matsferill komi í stað samræmdra prófa. Smíði þessa verkfæris til að mæla árangur grunnskólanema hefur staðið síðan 2020 og enn veit enginn hvenær það sér dagsins ljós,“ skrifar Björn.

Bendir hann á, eins og greint hefur verið frá, að frá árinu 2021 hafi ekkert samræmt mat á hæfni grunnskólanema farið fram hér á landi, og ekki horfur á að það breytist á næstunni.

Ráðherra að „redda grunnskólastarfi fyrir horn“

„Sagt var að tæknilegar ástæður gerðu ókleift að framkvæma samræmt mat,“ skrifar Björn.

„Þá var lögfest að frestað yrði út árið 2024 að leggja fyrir samræmd könnunarpróf. Verði lögum ekki breytt í haust verður skylt að taka upp slík próf að nýju frá og með 1. janúar 2025. Til að losna undan þeirri skyldu þarf að breyta grunnskólalögum á þingi haustið 2024.

Á einföldu máli má segja að ráðherra málaflokksins sé nú að „redda grunnskólastarfi fyrir horn“. Að málum sé þannig komið í þessum mikilvæga málaflokki er í senn sorglegt og alvarlegt.“

Breytingar dregið dilk á eftir sér

Ráðherrann fyrrverandi rifjar upp að ráðuneytið hafi verið brotið upp í sex einingar, við stjórnarmyndunina í lok nóvember árið 2021.

„Síðan réðst nýr ráðherra í að leggja niður Menntamálastofnun og komið var á fót Miðstöð menntunar og skólaþjónustu með því fororði að eftirlit með skólastarfi yrði aðgreint frá þjónustu og ráðgjöf, og færðist til mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrst um sinn, eins og það var orðað við kynningu á skipulagsbreytingum í október 2022,“ skrifar Björn.

„Allt hefur þetta dregið dilk á eftir sér en er engin afsökun fyrir að láta grunnskólastarf gjalda þess á þann hátt sem við blasir.“

Mikil óvissa

Björn heldur áfram og víkur máli sínu að bréfi sem umboðsmaður barna hefur sent ráðherranum, sem mbl.is greindi frá fyrir tæpum tveimur vikum:

„Óvissan núna er svo mikil að umboðsmaður barna sá 23. júlí 2024 ástæðu til að senda Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, bréf og óska eftir upplýsingum, eftir atvikum með atbeina Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, um það hvort til staðar sé skýr og heildstæð áætlun um innleiðingu á nýju samræmdu námsmati,“ skrifar Björn.

„Þá óskar umboðsmaður barna eftir að fá aðgang að þeirri áætlun. Einnig óskar umboðsmaður barna eftir að fá upplýsingar um hvenær áætlað sé að nýtt samræmt námsmat verði innleitt að fullu.“

Ráðherra trassar að skila skýrslu

Björn tiltekur einnig að í bréfi umboðsmanns barna sé vikið að þeirri skyldu ráðherrans, að leggja á þriggja ára fresti skýrslu fyrir Alþingi um framkvæmd grunnskólastarfs.

Slík skýrsla hefur ekki verið lögð fram síðan á því þingi sem sat árin 2018-2019 og tók hún til skólaáranna 2010-2016, eins og mbl.is hefur áður fjallað um.

Umboðsmaður barna vakti at­hygli Ásmundar Einars á þessu með bréfi 13. apríl árið 2022.

Í svari ráðuneyt­is­ins sem barst 3. maí sama ár var því lofað að ráðherra myndi leggja fram skýrslu um fram­kvæmd skóla­starfs í grunn­skól­um sem myndi ná til ár­anna 2017-2021, fyr­ir lok árs­ins 2022.

Skýrsl­an hef­ur þó enn ekki verið lögð fyr­ir Alþingi. Ber ráðherra fyrir sig breytingar á ráðuneytinu og svo tilkomu nýrrar stofnunar í stað Menntamálastofnunar. Drög að skýrslunni eru samt sem áður sögð tilbúin.

Færi til að gera hreint fyrir sínum dyrum

Fram kom í bréfi umboðsmanns að ráðherra hefði frest til 19. ágúst til að svara bréfinu, eins og Björn bendir að lokum á:

„Í svarinu gefst yfirvöldum menntamála færi á að gera hreint fyrir sínum dyrum og eyða óvissu sem snertir tugi þúsunda barna og fjölskyldur þeirra.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka