Segir skort hafa verið á úrræðum

Forstjóri Vegagerðarinnar fagnar umræðunni um samgöngumál. Segir hún peninga vanta …
Forstjóri Vegagerðarinnar fagnar umræðunni um samgöngumál. Segir hún peninga vanta í kerfið og eðlilegt að leitað sé lausna. mbl.is/Árni Sæberg

Leggja þarf meira í viðhald samgöngukerfisins og áframhaldandi uppbygginu að mati Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra Vegagerðarinnar. Fagnar hún umræðu þingmanna og ráðherra um samgöngumál.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, lagði til að tekið yrði upp veggjald til að viðhalda samgöngukerfinu í aðsendri grein í Morgunblaðinu sl. laugardag.

Leggur hann m.a. til að stofna þurfi opinbert fyrirtæki sem myndi taka yfir uppbyggingu og mögulega rekstur á stofnleiðakerfinu, auk allra jarðganga og valinna vegarkafla víða um land. „Jón Gunnarsson hefur náttúrulega verið ötull málsvari samgöngumála og kemur ekki á óvart að hann blandi sér í umræðuna og svo hvort menn vilji reka þetta sem stofnun eða opinbert hlutafélag það er náttúrulega bara tilbrigði við stef,“ segir Bergþóra.

Hún segir að til þess að Vegagerðin geti sinnt sínu hlutverki í viðhaldi þurfi úrræði til þess að geta unnið verkin.

„Það er það sem hefur kannski skort svolítið á, þá sérstaklega varðandi viðhaldsþáttinn.“

Kveðst Bergþóra ekki hafa myndað sér skoðun á hvort Vegagerðin yrði betur sett sem opinbert hlutafélag.

„Hún er afskaplega hæf eins og hún er. Hún yrði það örugglega í öðru rekstrarformi líka.“

Segir Bergþóra aðalmálið vera að það vanti peninga inn í samgöngumál og að ekki sé óeðlilegt að menn velti fyrir sér ýmsum lausnum. Sjálf hafi Vegagerðin lagt áherslu á það.

„Nú liggur í samráðsgátt frumvarp til laga um kílómetragjald vegna notkunar ökutækja Við höfum lagt áherslu á það að þeir fjármunir sem fást með þeim hætti þurfi að fara til samgöngumála. Það er náttúrulega stóra baráttumálið að það sé alveg öruggt,“ segir Bergþóra.

Hún bætir við að þau lög sem gilda í dag um fjármál ríkisins geri ekki ráð fyrir eyrnamerktum tekjum í ákveðin verkefni.

„Þá er ástæða til að minna á það að þessir fjármunir þurfi að fara til samgöngumála ef vel á að vera. Ef að það gerist þá held ég að við getum mjög auðveldlega unnið okkur út úr þeirri lægð sem við erum í í dag.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka